Konur hafa ekki alltaf notið sviðsljóssins í tölvuleikjasamfélaginu en hafa þó alla tíð spilað leiki eins og aðrir. Í samfélaginu má finna mörg dæmi um það hvernig konur séu konum bestar þegar kemur að því að styðja við hvora aðra í heim tölvuleikja.
Þann 15. desember á síðasta ári ákvað Unnur Sigurjónsdóttir að stofna sérstakt félag (e. guild) fyrir konur sem vilja spila saman tölvuleikinn World of Warcraft. Spila þær Horde megin á Executus netþjóninum.
Félaginu er stýrt af þremur konum, Unni Sigurjónsdóttir, Júlíu Katríni Behrend og Guðrúnu Lilju Guðmundsdóttir.
Guðrún Lilja birti færslu í gær á Facebook hóp TÍK, Tölvuleikjasamfélag íslenskra kvenna, þar sem hún vekur athygli á félaginu og býður hún konur velkomnar að vera með í þessum félagið.
Hún segir félagið vera fyrir hversdagslega spilara og því henta vel þeim konum sem eru ýmist í barneignaleyfi, í námi, vinnu eða hvað sem er. Einnig tekur hún fram að aldur og fyrri störf skipti engu máli þar sem að allar konur eru velkomnar.
„Markmiðið er að mynda góða vináttu og samfélag með stefnu á að hittast og lana eða bara hittinga í raunheimum þegar Covid leyfir, spila saman, hlægja saman og hafa gaman sama hver reynslan af leiknum er, algjör byrjandi eða búin að spila síðan WOW kom út,“ segir í færslunni hennar Guðrúnar en hún byrjaði sjálf að spila í gegnum móður sína og hefur spilað leikinn í fjórtán ár.
Félagið er einnig ætlað sem ákveðið „safe zone“ eða öruggt svæði fyrir konur til þess að spila saman.
Nefnir hún í samtali við mbl.is að margar konur hætti að spila tölvuleiki þegar meðspilarar komast að því að þær séu kvenkyns. Verða margar hverjar fyrir áreitni og annarskonars dónaskaps.
„Svo hugmyndin af þessu safe zone'i er svolítið sótt í það að konur sem eru búnar að gefast upp á þessu bro culture og áreitni geti spilað saman og verið hluti af hóp sem tekur þessu ekki rosalega alvarlega,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Frá því að félagið var fyrst stofnað hafa sífellt fleiri konur haft samband og óskað eftir því að fá inngöngu í félagið og er því ljóst að kvennasamfélagið í tölvuleikjum fer ört stækkandi.