Keyrðu í bandarísku umhverfi

Skjáskot úr hermikappakstursleiknum Gran Turismo.
Skjáskot úr hermikappakstursleiknum Gran Turismo. Skjáskot/Gran Turismo

Í vikunni fór fram 11. umferð 2021-22 keppnisársins í GTS Iceland, íslensku mótaröðinni í Gran Turismo. Keppendur „ferðuðust“ til Bandaríkjanna til þess að etja kappi hvorn við annan á Willow Springs kappakstursbrautinni í Kaliforníu.

Keppt er í mótaröðinni á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum aðra hverja viku og keppnir almennt sýndar í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland.

Tier 1

Það var full mæting í efstu deild og allir fjórtán ökumenn mættu á ráslínu. Í þessari keppni var keppt á SuperGT bílum, en þetta var seinni af tveimur SuperGT keppnum tímabilsins.

Það var Ævar Valur, liðsmaður TASTY Racing, sem nældi sér í sinn fyrsta ráspól í tímatökum og er þetta því fyrsta keppni tímabilsins þar sem ökuþórar liðs Supernova eru ekki á ráspól. Það gekk á ýmsu í keppninni og mismunandi keppnisplön í gangi, en það var á endanum Hannes Jóhannsson hjá Supernova sem hreppti sigur, sinn fimmta á tímabilinu.

Kári Steinn (NOCCO Racing Team) tók annað sætið eftir harðan slag við Evu Maríu (Supernova), sem var svo harður að Kári kærði atvik þeirra á milli eftir keppni og hlaut Eva 5 sekúndna refsingu fyrir vikið. Ævar endaði svo í þriðja sæti rétt á undan Evu, en hann nældi sér einnig í aukastig fyrir hraðasta hring í keppninni.

Engin breyting varð á stigatöflunni í keppni ökumanna, en í liðakeppninni hefur NOCCO Racing Team rétt náð fram úr BYKO Racing, og sitja nú í þriðja sæti.

Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 1 deildina HÉR.

Upptöku af keppninni má sjá HÉR.

Sigurvegari í Tier 1, Hannes.
Sigurvegari í Tier 1, Hannes. Skjáskot/Gran Turismo

Tier 2

Það voru kunnugleg andlit í efstu sætunum í Tier 2 deildinni. Ívar Eyþórsson (GT Akademían Racing) var á miklu flugi þetta kvöldið og náði ráspól í tímatökum, og hreppti svo sigurinn ásamt hraðasta hring.

Hann fer því með fullt hús stiga út úr þessari keppni. Annað sætið féll í skaut Róberts Þórs (THOR Racing Team) og Gunnar Ágústsson (NOCCO Racing Team) steig á pall í þriðja sæti.

Það er gaman að segja frá því að þessir sömu þrír keppendur voru einnig á verðlaunapalli í síðustu keppni, en enginn þeirra í sama sæti og nú, þannig óhætt að segja að þeir deili pallinum bróðurlega á milli sín.

Ívar hefur nú endurheimt forystuna í stigakeppni ökumanna, en þeir Róbert eru í hörðum slag á toppnun. Í liðakeppninni náði NOCCO Racing Team þriðja sætinu af TRB Racing, og TEQ Racing skaust upp fyrir TGR Iceland, og situr nú í fjórða sæti.

Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 2 deildina HÉR.

Upptöku af keppninni má sjá HÉR.

Sigurvegari í Tier 2, Ívar.
Sigurvegari í Tier 2, Ívar. Skjáskot/Gran Turismo

Tier 3

Keppendahópurinn í opnu deildinni heldur áfram að stækka, en fjórtán keppendur tóku þátt í 3. umferð Vortímabils.

Dimmi Nikolov sneri aftur, en hann er ríkjandi meistari Vetrartímabils Tier 2 deildarinnar en dróg sig svo í hlé. En það er meira en að segja það að hvíla sig frá kappakstri, því hann kom, sá og sigraði keppnina.

Í 2. sæti endaði Hafsteinn Veigar, en hann er nú eini keppandinn í Tier 3 sem hefur endað á verðlaunapalli í öllum þremur keppnunum. Þriðja sætið tók Daði Gränz, en þetta var hans fyrsta keppni í GTS Iceland! Glæsileg innkoma hjá Daða.

Agnar Freyr (MS Racing) sem leiddi stigakeppni ökumanna fyrir keppnina, lenti í vandræðum í keppninni og endaði í 7. sæti, og fyrir vikið hefur Hafsteinn nú tekið forystuna í stigakeppninni, en mikil spenna er á toppi deildarinnar.

Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 3 deildina HÉR.

Upptöku af keppninni má sjá HÉR.

Sigurvegari í Tier 3, Dimmi.
Sigurvegari í Tier 3, Dimmi. Skjáskot/Gran Turismo

Allir velkomnir

Tólfta umferð mun fara fram 22.-23. febrúar og verður keyrt á Dragon Trail Gardens, en það er braut sem eingöngu fyrirfinnst innan heims Gran Turismo. Allar þrjár deildirnar munu keyra GT3 keppnisbíla.

Áhugasömum er bent á að allir eru velkomnir í Facebook umræðuhóp GTS Iceland, hvort sem tilgangurinn sé að keyra með hópnum, fylgjast með eða taka þátt í umræðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka