Wordle gæti hafa bjargað lífi konu

Wordle er vinsæll orðaleikur.
Wordle er vinsæll orðaleikur. AFP

Vinsæli stafaleikurinn Wordle gæti hafa bjargað lífi konu sem var haldið fanginni í kjallara á heimili sínu í Illinois í Bandaríkjunum. Grunsemdir vöknuðu um að ekki væri allt með felldu þar sem konan hafði ekki sent dóttur sinni skilaboð um stigin úr leiknum, eins og hún gerði á hverjum degi.

Denyse Holt, áttræðri konu, var haldið fanginni í 20 klukkustundir af árásarmanni sem hafði brotist inn á heimili hennar um miðja nótt nakinn og vopnaður eggvopni, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.

Vildi hjálp við að láta hlýja sér

Eftir að hafa vakið konuna skreið maðurinn upp í rúm hennar og hótað að skera hana ef hún skyldi öskra. Eftir að reiðin rann af innrásarmanninum tók hann hótanir sínar til baka og bað konuna um hjálp við að hlýja sér. Kvaðst hann ekki vilja gera henni mein.

Að lokum kom til þess að maðurinn læsti konuna í kjallaranum á heimilinu og lét hana dúsa þar án matar og lyfja. Óttaðist hún um líf sitt á meðan og reyndi að halda sér við með því að hreyfa sig reglulega.

Grunsemdir komu upp eftir að stigin bárust ekki

Til allrar hamingju var Holt, sem starfaði eitt sinn sem kennari, dyggur aðdáandi stafaleiksins Wordle. Leikinn er einungis hægt að spila einusinni á dag og býðst spilurum sá valkostur að senda stigafjöldann að hverjum leik loknum á aðra. 

Hafði Holt það að venju að senda elstu dóttur sinni, sem bjó hinum megin á landinu, stigin úr leiknum á hverjum degi. Vöknuðu því upp grunsemdir hjá dótturinni þegar skilaboðin bárust ekki morguninn sem Holt var haldið fanginni í kjallaranum.

Nágranni heyrði hróp úr kjallaranum

Eftir að börn Holt náðu ekki í móður sína í gegnum heimasíma fengu þau skilaboð um að búið væri að aftengja landlínuna og vöknuðu þá miklar áhyggjur. Brugðu þau þá á það ráð að fá nágranna hennar til að litast um eftir henni. 

Þegar ekkert svar kom eftir að hafa bankað á dyrnar, ákvað nágranninn að skoða sig betur um og labbaði í kringum húsið. Heyrði hann þá konuna hrópa á hjálp og hringdi í kjölfarið í lögregluna. Var maðurinn sem braust inn handtekinn á vettvangi og konan frelsuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert