Í gærkvöldi, sunnudaginn 13. febrúar, slógu GameTíví og GTS Iceland saman í E-kappakstursmót.
Þrjátíu keppendur tóku þátt, en þeim var raðað í tvo riðla af handahófi. Sjö efstu keppendur hvors riðils komust svo áfram í úrslitakeppnina, en þar hlutu efstu þrír keppendur verðlaun í boði GameTíví, meðal annars eintak af Gran Turismo 7, sem kemur út þann 4. mars á PlayStation 4 og PlayStation 5.
Keppnirnar voru settar upp sem svokallaðar „one-make“ keppnir, þar sem allir ökumenn keyra sama bílinn með sömu uppsetningu, sem í þetta sinn var McLaren 650S GT4.
Keyrt var í Austurríki á Red Bull Ring í undankeppnunum tveimur, en úrslitin sjálf fóru fram á hinni sögufrægu Spa Francorchamps í Belgíu.
Það var mikill hamagangur og baráttan hörð, en það var að endingu hann Ívar Eyþórsson sem stóð uppi sem sigurvegari mótsins, en hann sigraði bæði sinn riðil og úrslitakeppnina sjálfa með þónokkrum yfirburðum. Jón Ægir Baldursson nældi í annað sætið og Gunnar Ágústsson endaði í þriðja sæti.
Allt eru þetta kunnugleg nöfn innan Gran Turismo senunnar á Íslandi, en Jón Ægir keyrir fyrir keppnisliðið BYKO Racing í efstu deild GTS Iceland, á meðan Ívar og Gunnar keyra báðir í 2. deild, þar sem Ívar leiðir stigakeppnina þegar þetta er skrifað.
Ívar er liðsmaður GT Akademían Racing, en Gunnar keyrir fyrir systurlið NOCCO Racing Team, sem einnig reka lið í efstu deild.
Þó að kappakstrinum sé nú lokið þá eru þó ein verðlaun sem á eftir að útkljá, fyrir flottasta „livery“, eða s.s. skreytingu á bílnum. Keppendur voru hvattir til þess að skreyta keppnisbíl sinn með GameTíví þema, og GameTíví strákarnir ætla að velja það sem þeim finnst flottast í beinni útsendingu í Mánudagsstreyminu þeirra í kvöld, 14. febrúar.
Mótið var sýnt í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland, en hægt er að horfa á upptökuna hér að neðan.