Gróðursetja tré fyrir hvern bikar

Horizon Forbidden West.
Horizon Forbidden West. Grafík/Guerilla Games

Sony tilkynnti nýlega að fyrirtækið væri að fara af stað með einstaka loftslagsmála-herferð í kjölfar útgáfu á tölvuleiknum Horizon Forbidden West, sem kemur út á föstudaginn.

Herferðin heitir Play and Plant og mun fyrirtækið láta gróðursetja allt að 288.000 tré víðsvegar um Bandaríkin.

Gert í sameiningu

Play and Plant stendur frá útgáfu og fram að 25. mars og verður tré gróðursett fyrir hvern „Reached the Daunt“ bikar veittur er leikmönnum innanleikjar. Bikarinn er veittur frekar snemma í leiknum svo líkur eru á að herferðin muni ná hámarki sínu, þ.e.a.s ná að gróðursetja 288.000 tré.

 „Fyrir útgáfu Horizon Forbidden West vildum við gera eitthvað til þess að hjálpa náttúrunni... með ykkur. Líkt og Aloy berst fyrir því að bjarga jörðinni í leiknum, getum við gert eitthvað í sameiningu til þess að bjarga okkar plánetu,“ segir Sony.

Sem fyrr segir mun leikurinn koma út á föstudaginn en einungis verður hægt að spila hann á PlayStation-tölvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert