Tanukana, atvinnumaður í Tekken, var rekin úr liðinu Cyclops Athlete Gaming fyrir að gera lítið úr lágvöxnum körlum í beinu streymi þann 15. febrúar.
Nánar tiltekið segir hún að menn undir 170cm hefðu ekki mannréttindi og bætir við að þeir ættu að fara í aðgerð til þess að lengja beinin sín.
Cyclops Athlete Gaming keppir í fyrstu persónu skotleikjum á borð við PUBG, Call of Duty og Rainbow Six Siege en einnig í bardagaleikjum eins og Tekken. Tanukana hefur setið í sviðsljósinu í japönskum fjölmiðlum og jafnframt verið talin stjarna á uppleið.
Liðið birti formlega afsökunarbeiðni á heimasíðunni sinni.
„Við höfum staðfest að þann 15. febrúar gerði Tanukana, sem er meðlimur í Cyclops Athlete Gaming, óviðeigandi athugasemd á streymi. Varðandi þetta mál viljum við biðja aðdáendur, styrktaraðila og alla aðra sem styðja okkur innilega afsökunar.“
Tanukana birti einnig afsökunarbeiðni á Twitter-aðgangi sínum sem hún beinir að aðdáendum sínum og styrktaraðila liðsins, Redbull.
„Sem atvinnumaður í rafíþróttum og meðlimur samfélagsins, sé ég einlæglega eftir þessu og biðst afsökunar á því að hafa svikið ykkur“ skrifaði Tanukana.