Framtíð Lost Ark viðkvæm

Lost Ark er nýr MMORPG tölvuleikur frá Smilegate og Amazon …
Lost Ark er nýr MMORPG tölvuleikur frá Smilegate og Amazon Games. Grafík/Smilegate

Tölvuleikurinn Lost Ark, sem Smilegate og Amazon Games gáfu út fyrr í mánuðinum, hefur aldeilis fangað athygli tölvuleikjaspilara og varð um leið annar mest spilaði tölvuleikur allra tíma á leikjaveitunni Steam. 

Ráða ekki við álagið

Í kjölfar gríðarstórrar útgáfu Lost Ark, þar sem að yfir milljón leikmenn eru skráðir inn í leikinn samtímis, hafa netþjónar ekki undan og þurfa fleiri þúsund leikmenn að bíða í röð eftir því að komast inn í leikinn. 

Er þetta svipað vandamál og fyrri stóri leikurinn frá Amazon Games, New World, stóð frammi fyrir strax við útgáfu.

Opnað nýtt svæði

Þetta vandamál hefur verið viðvarandi í að verða tvær vikur og þá sérstaklega á evrópskum netþjónum. Þróunaraðilar hjá Smilegate hafa ítrekað reynt að draga úr álagi evrópskra netþjóna með uppfærslum samhliða opnun á nýju netþjónasvæði fyrir Vestur-Evrópu.

Í færslu sem þróunaraðilar Lost Ark birtu á sunnudaginn segir að valmöguleikinn á netþjónaflutningum hafi verið skoðaður en var komist að þeirri niðurstöðu að leikurinn bjóði hreinlega ekki upp á það.

Framtíð leiksins er því á viðkvæmu stigi sem stendur og hjálpar ekki að Destiny 2 Witch Queen verður gefinn út í dag ásamt 9.2 uppfærslunni í World of Warcraft. Einnig kemur Elden Ring út á föstudaginn og þessir leikir gætu auðveldlega dregið til sín stóran leikmannahóp frá Lost Ark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert