Vill fá leikinn á hvíta tjaldið

Serious Sam : Siberian Mayhem.
Serious Sam : Siberian Mayhem. Grafík/Devolver Digital

Fyrstu persónu skotleikurinn Serious Sam gæti verið á leiðinni á hvíta tjaldið, samkvæmt rússneskum leikara, framleiðanda, leikstjóra og vaxtarræktarmanninum Alexander Nevsky.

Í nýlegri færslu á samfélagsmiðlum Nevsky tilkynnir hann að sú umræða sé komin upp á yfirborðið í EFM, European Film Market.

„Þegar ég sé allt hatrið og neikvæðnina sem flæða yfir alþjóðlega og rússneska fréttamiðla, tel ég að það sé kominn tími á að fara aftur í að þróa Serious Sam (eða Cool Nevsky) kvikmynd og skapa smá jákvæðni!“ segir Nevsky á opinberum Twitter-aðgangi sínum. 

Hann bætir við að hann sé nú þegar byrjaður að ræða verkefnið við alþjóðlega dreifingaraðila hjá EFM. 

Þekktur fyrir kjánalæti

Í Rússlandi er Alexander Nevsky þekktur í fjölmiðlum og hefur vakið athygli nokkrum sinnum fyrir birtingar á kjánalegum líkamsræktarmyndböndum og ennþá verri hasarkvikmyndum - sem mörgum hverjum hann leikstýrði og lék sjálfur í.

Hann talar jafnframt um sjálfan sig sem hinn rússneska Schwarzenegger og telur sjálfan sig vera stærstu hasarstjörnu Rússlands. Almenningur tekur að jafnaði í það sem grín og benda á að kvikmyndirnar hans eru taldar annars flokks kvikmyndir og lýsa þeim sem „svo lélegum að þær eru góðar“.

Fengið slæma dóma

Í gegnum ferilinn hefur Nevsky einnig komið fram í nokkrum vestrænum kvikyndum, þar sem hann leikur með leikurum á borð við Wesley Snipes, Michael Madsen, Danny Trejo, Oleg, Taktarov, Cary-Hiroyuki Tagawa og fleirum. 

Hinsvegar hafa flest verkefnin sem Nevsky tók þátt í fengið skelfilega dóma og verið illa auglýst, nefna má kvikmyndir á borð við Showdown in Manila, Moscow Heat, Black Rose (sem hann leikstýrði) og Maximum Impact. Þessir titlar hafa verið að slefa rétt yfir 2/10 í einkunn.

Óvíst hvað verður

Sem stendur eru engar upplýsingar eða tilkynningar um Serious Sam verkefnið, eða hvort það muni verða að veruleika. Nevsky stendur samt fast á því að hann sé að ræða verkefnið við aðila innan EFM, sem er þriðji stærsti markaðurinn í þessum geira.

Serious Sam leikjaserían hefur verið ein af þessum klassísku fyrstu persónu skotleikjum frá því hún hóf göngu sína fyrir Windows-tölvur árið 2001. Áhuginn á seríunni var endurskoðaður nýlega eftir síðasta aukapakkann, Serious Sam: Siberian Mayhem, sem kom út fyrir mánuði síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert