Pólska stúdíóið 11 Bit Studios og tölvuleikjaverslunin GOG tilkynntu að næstu vikuna munu allar tekjur tölvuleiksins This War Of Mine renna til Rauða Krossins í Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa í landið.
11 Bit Studios sögðu í gær að það standi gegn inrás Rússa og að orð væru innihaldslaus ef þeim væri ekki fylgt eftir með einhverskonar framkvæmd.
Vegna þessa ákvað stúdíóið að næstu sjö dagana munu allar tekjur tengdar This War Of Mine munu renna beint í sérstakan sjóð. Eftir viku fer því peningurinn til Rauða Krossins í Úkraínu í því skyni að styðja við fórnarlömb stríðsins í Úkraínu.
„Látið þessi skilaboð hljóma með öllu sem þið vitið um þetta stríð og hvernig stríð drepur fólk, eyðileggur líf þess og heimili. Látið okkur - leikmenn og þróunaraðila í sameiningu - gera allt sem við getum til þess að styðja við fórnarlömb stríðsins í Úkraínu,“ segir í tísti frá stúdíóinu.
Í kjölfar tilkynningunnar ákvað tölvuleikjaverslunin GOG að fylgja því eftir og sagði að allur ágóði versluninnar af tölvuleiknum muni einnig renna til Rauða krossins í Úkraínu.
This War Of Mine er óhefðbundinn stríðsleikur þar sem leikmenn upplifa stríðið frá sjónarhorni almennra borgara í stað stríðsmanna í fremstu víglínu.
Eftir að þróunaraðilar tilkynntu áform sín um að láta allan gróða leiksins renna til Rauða Krossins í Úkraínu hefur leikurinn verið að fá fjöldan allan af jákvæðum ummælum á Steam.