Íslenskir rafíþróttamenn halda áfram að teygja sig eftir stjörnunum og eru nú strákarnir í Dusty komnir til Kettering í Bretlandi til þess að keppa í Counter-Strike: Global Offensive.
Dusty tekur þátt í mótaröð sem heitir EpicLAN en þetta er í annað sinn sem liðið tekur þátt í því.
„Við erum vongóðir fyrir mótið og stefnum á fyrsta sætið,“ segir Bjarni Þór, leikmaður hjá Dusty í samtali við mbl.is.
Mótið, EpicLAN35, hófst í morgun og segir Bjarni að ferðin hafi gengið vel fyrir sig hingað til og eins hafi reynslan við að hafa farið þangað áður að keppa gert strákunum auðveldar fyrir.
Mótið stendur fram á sunnudag og verða þá úrslitaviðureignir spilaðar.