Í vikunni fór fram 12. umferð 2021-22 keppnisársins í GTS Iceland, íslensku mótaröðinni í Gran Turismo. Þessa vikuna þurftu keppendur að kljást við brautina „Dragon Trail – Gardens“ sem er staðsett í Króatíu í heimi leiksins. Allar deildir keyrðu á GT3 keppnisbílum.
Keppt er í mótaröðinni á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum aðra hverja viku og keppnir almennt sýndar í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland.
Það var mikil spenna í efstu deildinni þessa vikuna þar sem barist var um efstu sætin með kjafti og klóm fram á síðasta hring. Það voru þau Eva og Hannes, ökumenn Supernova, ásamt Kára (NOCCO Racing Team) og Ævari (TASTY Racing) sem sköruðu fram úr og skildu sig frá hópnum.
Eva ræsti af ráspól og virtist hafa stjórn á þessari keppni frá upphafi til enda, en hún leiddi hvern einasta hring og sigraði keppnina, ásamt því að ná hraðasta hringnum. Baráttan um 2.-3. sætið var mjög hörð, en Kári náði ekki að halda aftur af Hannesi, sem tók fram úr honum í blálokin og tók 2. sætið. Kári þurfti því að sætta sig við 3. sæti, og Ævar kom í mark rétt á eftir honum í 4. sæti.
Kári hefur nú komið sér upp í 3. sætið í stigakeppni ökumanna, en staðan er óbreytt á toppnum þar sem Hannes leiðir deildina, 10 stigum fyrir ofan Evu liðsfélaga sinn. Þau tvö virðast vera ósnertanlegt á toppnum, en liðið er einnig langefst í stigakeppni liða.
Í liðakeppninni er það baráttan um 2.-5. sætið sem er mjög jöfn milli TGR Iceland, NOCCO Racing Team, BYKO Racing og TASTY Racing.
Það er gaman að segja frá því að Ívar Eyþórsson, keppandi GT Akademían Racing í Tier 2 deildinni, keyrði sína fyrstu keppni í Tier 1. Þar sem annar liðsmaður BYKO Racing (Jón Valdimarsson) verður fjarverandi næstu þrjár keppnir, þá fékk liðið samþykki frá hópnum til að fá inn varamann í þær keppnir.
Ívar tók slaginn, en BYKO Racing og GT Akademín Racing hafa verið að vinna saman á tímabilinu. Ívar endaði í 6. sæti í frumraun sinni í sterkustu deild GTS Iceland og því óhætt að segja að hann hafi staðið sig vel!
Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 1 deildina HÉR.
Upptöku af keppninni má sjá HÉR.
Óvenju fámennt var í 2. deildinni, en aðeins 10 keppendur af 14 sáu sér fært að mæta til keppni. Það hafði þó ekki áhrif á gæði keppninnar, þar sem mikið var um baráttu og sigurinn ráðst á síðustu hringjunum.
Það var hann Gunnar, ökumaður systurliðs NOCCO Racing Team, sem var hraðastur framan af. Hann nældi sér í ráspól í tímatöku, en Ívar Eyþórsson (GT Akademían Racing) og Ragnar Egilsson (THOR Racing Team) voru ekki langt undan.
Í keppninni lét Gunnar reyna á annað keppnisplan en keppinautar sínir og byrjaði á mýkri dekkjum, meðan hinir byrjuðu á harðari dekkjum. Til upplýsinga þá þurfa keppendur að nota báða dekkjaumganga í keppninni, en þeirra er valið í hvaða röð.
Á endanum var það Ívar sem sótti hart á Gunna eftir þjónustuhlé, en þá var hann kominn á mýkri dekkin og Gunnar á hörðu. Eftir góðan slag var það Ívar sem hafði betur og nældi í sinn þriðja sigur í fjórum keppnum! Gunnar þurfti að sætta sig við 2. sætið, og það var svo Róbert Þór sem tók 3. sætið.
Það er óbreytt staða í efstu sætum stigakeppninnar, en helstu breytingar eru þær að Brynjólfur (NOCCO Racing Team) hefur komið sér upp í 7. sæti, og er að nálgast þá Hilmar (GT Akademían Racing) og Arnar (TRB Racing) í slagnum um 5. sætið. Staðan er óbreytt í liðakeppnnni og fátt til tíðinda þar.
Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 2 deildina HÉR.
Upptöku af keppninni má sjá HÉR.
Það verður að segjast að Tier 3 keppni vikunnar var með rólegra móti. 10 keppendur mættu á ráslínu og það var lítið um flugelda í keppni þar sem keppendur dreifðust fljótt um brautina keyrðu að mestu hver í sínu lagi.
En við fengum nýjan sigurvegara, þar sem Jökull Hrafnsson var í fantaformi í þessari keppni. Hann negldi þetta með því sem kallast „Grand Slam“, s.s. ráspól, leiddi keppnina frá upphafi til enda, og náði hraðasta hring. Ekki slæmt að ná sínum fyrsta GTS Iceland sigri með svona látum.
Arnar Arnars náði 2. sætinu, og er þetta hans fyrsta keppni á verðlaunapalli, flottur árangur eftir góða frammistöðu í síðustu tveimur keppnum. Agnar kláraði pallinn og landar 3. sætinu.
Þó að þessi tiltekna keppni hafi ekki verið sérlega spennandi, þá er gífurlega mikil spenna í stigakeppninni! Hafsteinn Veigar, sem kláraði utan verðlaunapalls í fyrsta skipti í þessari keppni, heldur enn forystunni, en naumlega þó.
Agnar hefur endurheimt 2. sætið og er ekki nema 2 stigum frá Hafsteini. Með sigrinum stökk svo Jökull upp töfluna og kemur sér aftur fyrir í 3. sætinu. Hann er þó góðum 12 stigum á eftir Agnari og því verk að vinna fyrir Jökul ef hann ætlar sér að blanda sér í baráttuna um titilinn.
Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 3 deildina HÉR.
Upptöku af keppninni má sjá HÉR.
Þrettánda umferð fer fram 8.-9. mars og verður keyrt á Laguna Seca sem er vel þekkt kappakstursbraut í Kaliforníu.
Áhugasömum er bent á að allir eru velkomnir í Facebook umræðuhóp GTS Iceland, hvort sem tilgangurinn sé að keyra með hópnum, fylgjast með eða taka þátt í umræðum.