Íslendingar unnu erlent mót

Dusty.
Dusty. Grafík/Dusty

Íslendingarnir í Kettering, Bretlandi, kepptu í EpicLAN móti um helgina, EPIC35, en þar er keppt í Counter-Strike.

Íslenska rafíþróttaliðið Dusty tók þátt í mótinu en þetta er í annað sinn sem Dusty tekur þátt í þessu móti. 

Merk stund fyrir Íslendinga

Bjarni, leikmaður hjá Dusty, sagði á föstudaginn í samtali við mbl.is að liðið ætlaði sér að sigra í þetta sinn og var stefnan tekin á fyrsta sætið.

Strákarnir spiluðu til úrslita og hrepptu fyrsta sætið í mótinu sem skilaði þeim ekki aðeins 2.370 bandaríkjadölum, sem gera 300.000 íslenskar krónur, heldur brýtur þetta einnig blað í sögu liðsins.

Tíminn er núna

Liðsmenn Dusty hafa svo sannarlega fengið mikla athygli og lof frá aðilum úr tölvuleikjasamfélaginu, hvort sem það er frá fólki sem starfar innan geirans eða áhugamanna. 

„Erum allir bara gjörsamlega í skýjunum,“ segir Bjarni, liðsmaður Dusty í samtali við mbl.is og bætir við að þessi ferð hafi í raun verið upphitunarferð fyrir annað mót í apríl. Þá fara þeir aftur erlendis að keppa á aðeins stærra móti.

„Það eru stór tækifæri á næstunni og við ætlum að leggja allt í þetta fram að næsta erlenda móti. Ef það hefur einhvern tíman verið tími til að „meika það“, þá er það núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert