Sony hættir með PlayStation í Rússlandi

KIMIMASA MAYAMA

Sony hættir sölu á PlayStation í Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu og lokar á aðrar þjónustur.

Japanska tölvuleikjafyrirtækið lokar sölu á bæði vél- og hugbúnaði í Rússlandi vegna átakanna og hafa því íbúar Rússlands ekki heldur aðgang að vefverslun PlayStation.

„Sony Interactive Entertainment (SIE) gengur til liðs við alþjóðlegt samfélag við að kalla á eftir friði í Úkraínu,“ sagði fyrirtækið um málið.

Bitnar á rússneskum leikmönnum

Lokun Sony á PlayStation þjónustu mun líklega hafa víðtækar afleiðingar fyrir leikmenn í Rússlandi. 

Í færslu á rússnesku vefsíðunni Overclockers.ru er lýst hvernig nú berast fregnir af rússneskum leikmönnum sem lenda í vandræðum með að fá aðgang að núverandi leikjum sínum eða PlayStation viðmótinu síðan SIE lokaði aðgangi að þjónustu sinni í landinu.

Verða við bón Fedorov

Mörg önnur tölvuleikjafyrirtæki hafa einnig stöðvað starfsemi í Rússlandi eftir að aðstoðar forsætisráðherra Úkraínu, Mykhailo Fedorov, bað um það.

Pólska fyrirtækið CD Projekt hætti nýlega allri sölu í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. EA hefur einnig fjarlægt öll rússnesk íþróttafélög og íþróttamenn úr leikjum sínum. Microsoft hefur einnig lokað á þjónustu sína við Rússland og stöðvað nýlegar sölur.

Fyrirtæki um heim allan

Tölvuleikjafyrirtæki eru ekki einu fyrirtækin sem neita að stunda viðskipti við Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Meðal fyrirtækja sem hafa taka þátt í að útiloka þjónustu við Rússland eru m.a. Intel, Nvidia, Apple, McDonalds, Starbucks, Coca-Cola, PepsiCo, Ikea, H&M, Nike, Mercedez Benz og fleiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert