GameTíví-fjölskyldan stækkar

Marín Eydal, einnig þekkt sem mjamix, sér um Gameveruna en …
Marín Eydal, einnig þekkt sem mjamix, sér um Gameveruna en það er nýr dagskrárliður hjá GameTíví. Grafík/GameTíví

GameTíví-fjölskyldan heldur áfram að stækka en nýr dagskrárliður var kynntur fyrir almenning fyrir helgi.

Efnishöfundurinn og tölvuleikjastreymirinn Marín Eydal, einnig þekkt sem mjamix, er komin með sinn eigin þátt hjá GameTíví undir nafninu Gameveran.

Fyrsti þátturinn fór í loftið á fimmtudagskvöldið og þar spilaði hún leikinn Hunt Showdown og bæði skemmti og spjallaði við áhorfendur. Þættirnir verða sýndir í beinni öll fimmtudagskvöld klukkan 21:00 á Twitch-rás GameTíví og á Stöð2 Esports.

Þakklát fyrir stuðninginn

„Hlutirnir eru búnir að gerast svo svakalega hratt að manni líður pínu „overwhelmed“ en ég er samt fyrst og fremst ótrúlega þakklát fyrir allann stuðninginn, hjálpina og peppið sem ég hef fengið frá fjölskyldunni minni, vinum og fólkinu í bransanum,“ segir Marín í samtali við mbl.is.

Amma Marínar var ein af þeim fyrstu sem hún talaði við varðandi áform sín um að byrja að streyma frá sér að spila tölvuleiki. Segir hún hana hafa brugðist svo „einstaklega skemmtilega“ við því. 

„Hún var svo spennt fyrir mína hönd og vildi fá að vita meira um hvernig þetta virkar allt saman,“ segir Marín og fékk þetta hana til þess að hugsa um öran vöxt þessar stéttar, og þá sérstaklega hér á Íslandi.

Miklu meira en bara afþreying

„Ég veit ekki hversu oft ég heyrði fólk kalla tölvuleiki tímaeyðslu en núna er eins og samfélagið og eldri kynslóðir séu að átta sig meira á því að það er svo miklu meira í kringum þetta en bara afþreying.“

Marín segist ekki hafa búist við því að fá svona mikla umfjöllun, að minnsta kosti ekki svona snemma á hennar feril og er hún „eiginlega að fara smá hjá sér“. Það gefur augaleið að Marín nýtur sín vel í þessu hlutverki og segist hún vera spennt fyrir framhaldinu.

Ýmislegt uppi í erminni

„Ég hef bara svo sjúklega gaman af þessu og mig langar að bjóða íslenskum streymurum og tölvuleikjanördum í þáttinn til mín reglulega svo eitthvað sé gefið til baka. Ég er ótrúlega spennt fyrir framhaldinu og hlakka til að sýna fólki hvað ég hef upp í erminni.“

Hægt er að horfa á fyrsta þátt Geimverunnar á Twitch-rás GameTíví eða hreinlega hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert