Laugardalshöllin mun aftur hýsa stórmót fyrir tölvuleikjafyrirtækið Riot Games, VCT Masters fer fram í laugardalshöllinni í apríl en þar er keppt í tölvuleiknum Valorant. Nokkur af bestu liðum heimsins munu því snúa aftur til Íslands til þess að keppa í Valorant.
Hinsvegar koma takmarkanir á ferðum frá Úkraínu og Rússlandi í veg fyrir að rafíþróttaliðið FunPlus Pheonix komi en ákveðnar reglugerðir í tengslum við veirusýkingar standa einnig í vegi fyrir því að liðið komist á keppnisstað.
Riot Games greindi frá þessu á samfélagsmiðlum sínum og segir að í stað FunPlus Pheonix muni liðið Team Liquid hoppa í skarðið.
„Ferðatakmarkanir í Úkraínu og Rússlandi, sem og núverandi reglur um COVID-19, halda áfram að skapa fjölmargar áskoranir fyrir millilandaferðir,“ sagði Riot Games.
„Viðburðir okkar, samkeppnisrekstur og hreyfanleikateymi unnu að því að finna lausnir til að tryggja að FunPlus Phoenix gæti mætt á Masters Reykjavík.
Þessir valkostir fólu í sér að lengja skráningarfrest leikmanna, slaka á neyðaruppbótarreglum og hafa samband við viðkomandi embættismenn til að tryggja vegabréfsáritanir og ferðaheimildir. Því miður, og án þeirra eigin sök, mun FunPlus Phoenix ekki geta stillt upp heildarlista í Reykjavík.“
FPX sigraði EMEA Stage One Challangers með liðshópi sem innihélt tvo rússneska leikmenn, Shao og SUYGETSU ásamt einum úkraínskum leikmanni, ANGE1.
Vegna stríðsins sem ríkir í Úkraínu og hinna fjöldamargra refsiaðgerða sem lagðar eru á rússnesk flugfélög, er bæði krefjandi og flókið fyrir íbúa Rússlands að ferðast til annarra landa.
Team Liquid var í fjórða sæti í umspilsmóti EMEA-svæðisins og mun keppa í stað FPX á Masters Reykjavik. Þrjú lið frá því svæði fengu sæti í Masters Reykjavik svo fulltrúar þess svæðis verða Team Liquid, G2 Esports og Fnatic.
„Team Liquid verður boðið að taka þátt í Masters Reykjavik sem fulltrúar frá EMEA-svæðinu. Það mun tryggja að öll þrjú EMEA-sætin eru skipuð af liðum frá því svæði,“ segir Riot Games.
Riot Games hefur aftur sölsað undir sig Laugardalshöllina á meðan mótinu stendur, frá 10. apríl til 24. apríl.
Ísland hefur áður reynst fyrirtækinu vel hvað varðar mótahald en þetta er í fjórða sinn sem fyrirtækið heldur stórmót hér á landi.