Lansetrið Ground Zero hefur haldið starfsemi uppi í tuttugu ár en frá upphafi hefur stefna fyrirtækisins meðal annars snúið að því að halda verðum eins lágum og mögulegt er.
Verðskráin hefur því lítið breyst síðastliðin tuttugu ár sem hefur orðið til þess að verðbólguhækkun hefur haft lítil áhrif á aðsókn kúnna í setrið.
Hinsvegar stendur Ground Zero nú frammi fyrir því að þurfa að endurskoða verðskrána hjá sér en í samtali við mbl.is segist fyrirtækið þó reyna að halda verðum áfram eins lágum og mögulegt er.
„Nú er bara svo komið að því að við verðum að láta undan flóði verðhækkana á öllum sviðum í þjóðfélaginu og hækka verðskrána hjá okkur, eins hóflega þó og okkur er unnt,“ segir Ground Zero.
„Þrátt fyrir verðhækkanir er kjörorðið áfram „sanngjarnir og verðin áfram lág í fullu gildi !““
Dagstilboð Ground Zero haldast þó óbreytt ásamt meðlimagjaldi í Gz-Club. Viðskiptavinir geta haldið áfram að kaupa tíma á gömlu verðskránni í eina viku, fram á fimmtudaginn 7.apríl.
Hér að neðan er mynd af nýju verðskránni sem verður tekin í gildi eftir viku.