Gamalt jarm um Among Us varð að raunveruleika í dag sem fyrsta aprílsgabb en geta leikmenn þess leiks spilað í ákveðnum „hestaham“ á meðan fyrsta apríl stendur, samkvæmt PCGamesN.
Mörg fyrirtæki hafa látið af því að gabba fólk til þess að hlaupa á þessum degi og í staðinn tekið upp einhverskonar kjánaskap. Innersloth er eitt af þeim fyrirtækjum sem nýta daginn í kjánaskap og innleiddu þennan hestaham sem aðeins verður hægt að spila í dag.
Hestahamurinn er spilanlegur núna og munu leikmenn sjá persónur samspilara sinna breytast í hesta-útgáfu af Among Us-persónu.
Auk nýja útlits Among Us-persónanna fá „morðingjarnir“ í leiknum einstaka hreyfimynd þegar drepið er auk hneggs.
Þróunaraðilar segja hneggið hafa verið tekið upp af forritaranum Gary. Það var upphaflega gert í gríni og átti að vera notað sem staðgenglahljóð þangað til að raunverulegt hljóð fengist, en fljótlega tóku þeir ákvörðun um að þetta væri „miklu betra svona“.