Lögmenn þyrftu að skoða málið áður

Skjáskot úr Sonic the Hedgehog 2 kvikmyndinni.
Skjáskot úr Sonic the Hedgehog 2 kvikmyndinni. Skjáskot/YouTube

Kvikmyndastjóri Sonic, Jeff Fowler, segist hafa áhuga á því að vinna að kvikmynd byggða á tölvuleiknum Super Smash Bros en nefnir þó að nokkur lagaleg atriði gætu þvælst fyrir.

Í viðtali hjá ComicBook var Fowler spurður að því hvort hann myndi nokkurn tíman vilja koma Super Smash Bros-leikjaseríunni yfir á hvítatjaldið. En Sonic the Hedgehog 2, sem hann leikstýrði, er nýlega komin út í framhaldi af fyrri myndinni sem kom út árið 2020.

Lögmenn þyrftu að skoða málið

Fowler segist vera opinn fyrir hugmyndinni, að einhverskonar víxlverkefni á milli Super Smash Bros og Sonic gæti verið mjög skemmtilegt, en að það þyrftu lögmenn hans að skoða nánar áður.

„Ekkert myndi gera mig hamingjusamari en að henda bara öllum persónunum í fjölmennan bardaga og gera stóran Smash Bros-hlut. Það myndi örugglega krefjast vinnu frá lögfræðingunum áður en það gæti gerst,“ sagði Fowler og velti hugmyndinni nánar fyrir sér.

„Að fá Mario og Sonic í hringinn, ég meina það myndu allir deyja fyrir það, er það ekki? Það er bara klassískt.“

Þar sem að Sega á allar persónurnar úr Sonic leikjaseríunni, en Nintendo á Super Smash Bros og margar persónur í tengslum við þann leik, er líklegt að ganga þyrfti frá einhverjum lagaheimildum og fleiri atriðum í sama dúr. Eftir það væri hægt að skoða víxlverkefni á milli þessa tveggja heima.

Margt í vinnslu

Mario er hinsvegar á leiðinni á hvíta tjaldið seinna á þessu ári í teiknimynd frá Universal og Illumination.

Nintendo er einnig sagt vera að skoða verkefni umfram Super Mario, eins hefur verið gefið til kynna að leikarinn Seth Rogen gæti verið að vinna í sinni eigin Donkey Kong kvikmynd.

Það verkefni er sagt vera nú þegar í vinnslu hjá Illumination, sama framleiðsluveri og er að vinna í Super Mario Bros kvikmyndinni með Chris Pratt, sem leikur ítalska píparann Mario.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert