Chris Pratt og Jack Black í aðalhlutverkum

Chris Pratt og Jack Black fara með aðalhlutverk í Super …
Chris Pratt og Jack Black fara með aðalhlutverk í Super Mario-kvikmyndinni. Samsett mynd/AFP/Glenn Harris/Photorazzi

Super Mario-kvikmyndinni hefur verið seinkað aftur, en hún átti að koma út á vetrarsólstöðum þann 21. desember á þessu ári. Útgáfunni hefur nú verið seinkað fram í apríl á næsta ári.

Þann 7. apríl á næsta ári mun kvikmyndin koma út í Norður-Ameríku áður en hún verður aðgengileg í heimalandi Nintendo, Japan, en myndin kemur út þann 28. apríl í Japan.

Shigeru Miyamoto hjá Nintendo tilkynnir um seinkunina á Twitter og harmar hana mjög.

„Ég biðst innilega afsökunar, en ég lofa að hún verður þess virði að bíða eftir,“ segir Miyamoto.

Chris Pratt og Jack Black

Kvikmyndin er í vinnslu hjá framleiðsluverinu Illumination Entertainment, sem m.a. gerði myndina Aulinn Ég (e. Despicable Me).

Mario-myndin skartar frægum leikurum á borð við Chris Pratt sem Mario, Anya Taylor-Joy sem Peach og Jack Black sem Bowser. Charles Martinet, sem talar fyrir Mario í tölvuleikjunum, mun einnig bregða fyrir.

Hótað að brjóta hnéskeljarnar

Lítið sem ekkert er vitað um söguþráðinn í kvikmyndinni en Charlie Day, sem talar fyrir Luigi, staðfesti í febrúar að hann væri nú þegar byrjaður að taka upp setningar fyrir kvikmyndina - en að hann geti ekki sagt meira.

„Ég myndi elska að fá að segja ykkur allt um þetta, en þau eru háleynd með þetta dót. Algjörlega, þetta er alvöru dæmi,“ sagði Day.

„Ég veit ekkert. Ég mæti og þau eru alveg „þú segir þetta og þú segir hitt“. Og þetta er allt mjög fyndið og gott. Svo þegar ég labba út þá eru tveir menn í samfesting með hamra sem eru alveg „Ekki dirfast til að segja neinum frá þessu Charlie. Ég sver til Guðs að við munum ná hnéskeljunum þínum, við munum brjóta á þér hálsinn.“

Þekktir leikarar fara með aðalhlutverkin

Sem fyrr segir eru mörg þekkt andlit í kvikmyndabransanum sem munu fara með hlutverk innan Mario-kvikmyndinnar, en hér að neðan er listi yfir þau allra helstu.

Chris Pratt sem Mario

Anya Taylor-Joy sem Peach

Charlie Day sem Luigi

Jack Black sem Bowser

Fred Armisen sem Cranky Kong

Kevin Michael Richardsson sem Kamek

Sebastian Maniscalco sem Spike

Keegan-Michael Key sem Toad

Seth Rogen sem Donkey Kong

Charles Martinet sem eitthvað „óvænt“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka