Skráning í Valorant-deildir opin

Valorant frá Riot Games.
Valorant frá Riot Games. Grafík/Riot Games

Íslenskir Valorant-leikmenn geta skráð sig til leiks í Valorant-deildum Rafíþróttasamtaka Íslands fram að miðnætti þann 5. maí.

Keppt verður í Valorant-deildum RÍSÍ á milli 8. maí og 5. júní, en fjögur lið spila í hverri deild. Skráning er nú þegar hafin og hana má nálgast hér, en henni lýkur klukkan 23:59 þann 5. maí.

Spilað á fimmtudagskvöldum

Fyrstu þrjár vikurnar verða spilaðir tveir leikir, ekki viðureignir, í um það bil tvær klukkustundir á viku. Úrslit verða svo spiluð seinustu vikuna, þann 4. júní, með best-af-þremur fyrirkomulagi.

Leikir eru spilaðir á fimmtudagskvöldum, en keppendur geta haft samband við mótastjórn og óskað eftir því að færa dag- eða tímasetningu.

Þátttökugjald hljóðar upp á 5.000 krónur fyrir hvert fullskipað lið, en sérstakur afsláttur fæst fyrir einstaklinga og tvíeyki sem skrá sig til leiks. Liðum verður raðað í deildir eftir meðalranki liða og í sérstökum tilfellum eftir árangri fyrri mótaraða RÍSÍ í Valorant.

Konur sýnt sérstakan áhuga

Kvenkyns Valorant-leikmenn hafa sýnt mikinn áhuga og hefur RÍSÍ því ákveðið að bjóða upp á sérstakan kvennaflokk auk opins flokks. Fjögur efstu liðin úr hvorum flokki munu svo spila í sérstakri úrvalsdeild.

Þar geta keppendur geta unnið sér inn vegleg verðlaun, en heildarverðmæti þeirra eru yfir 100.000 krónur.

Streymt frá viðureignum

Streymt verður frá viðureignum beggja flokka úrvalsdeildarinnar á sunnudagskvöldum, en nánari upplýsingar varðandi tímasetningu hefur ekki verið gefin upp. Mótið endar á best-af-þremur viðureign úr báðum flokkum úrvalsdeildar þann 5. júní.

Nánari upplýsingar um mótið veitir mótastjórn RÍSÍ í Valorant á Discord-rás íslenska Valorant-samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert