Sádí-Arabía eignast 5% í Nintendo

Nintendo.
Nintendo. Grafík/Nintendo

Sádí-Arabía á núna 5,01% af Nintendo eftir að sádiarabíska fjárfestingarfyrirtækið Public Investing Fund, PIF, keypti hlut í Nintendo.

Bloomberg greinir frá því að landið er nú fimmti stærsti hluthafi Nintendo og er ekki reiknað með að fjárfestingin muni hafa nokkur áhrif innan Nintendo eða á leiki þaðan. Talið er að fjárfestingin muni hjálpa Sádí-Arabíu að læra af Nintendo.

„Sádí-Arabía hefur verið að auka viðleitni sína við að skapa sinn eigin iðnað í þessum efnum, og nýlegar fjárfestingar í japönskum tölvuleikjafyrirtækjum eru líklega leið þeirra til þess að læra af Japan,“ sagði Hideki Yasuda hjá Toyo Securities í samtali við Bloomberg.

Fleiri að baki

Þetta er ekki fyrsta fjárfesting PIF eða Sádí-Arabíu almennt í tölvuleikjaiðnaðinum, en PIF fjárfesti í framleiðsluverinu Capcom fyrr á árinu, en Capcom er m.a. þekkt fyrir tölvuleikina Resident Evil og Street Fighter.

Auk Capcom og Nintendo hefur PIF keypt hlut í Nexon, framleiðsluverið á bakvið MapleStory, en í hverju fyrirtæki fyrir sig fjárfesti PIF í yfir 5% hlut.

Prinsinn sjálfur fjárfest

Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu fjárfesti á síðasta ári í Take-Two, EA og Activision Blizzard, en vinsælir leikir á borð við GTA, Battlefield og Call of Duty koma frá þessum framleiðsluverum.

Árinu áður hafði hann keypt þriðjungshlut í japanska bardagaleikjafyrirtækinu SNK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert