Maxis, framleiðsluverið á bakvið Sims 4, sagði þrjá nýja aukapakka væntanlega í maí og júní, þar af tveir efnispakkar og einn leikjapakki.
Efnispakkarnir tveir voru kynntir seint í maí og gefnir út nokkrum dögum síðar. Þriðji aukapakkinn hinsvegar, leikjapakkinn, verður opinberaður síðar í dag með streymi.
Maxis hefur strítt leikjunum þremur með því að benda á tunglsljósið, hver maður sé raunverulega þegar tekur að dimma og fleira í þá áttina. Í kjölfarið fóru netverjar af stað með sögusagnir, en þeir telja sig eiga von á varúlfum með næsta aukapakka.
Klukkan 15:00 í dag verður leikjapakkinn kynntur með beinu streymi á YouTube. Þá verður skorið úr um hvort varúlfar séu á leiðinni í heim Simsverja, eða eitthvað annað.
„Ertu tilbúinn að sleppa fram af þér beislinu?“ segir í fyrirsögn streymisins.
„Nýr pakki rís fljotlega. Stilltu þig inn á streymið klukkan 15:00 þann 2. júní til þess að fá smjörþefinn af þeim sem þú gætir orðið þegar tekur að myrkva,“ segir um streymið sem virðist kynda undir sögusögnum um leikinn.