Samkvæmt þjóðtrú eru varúlfar þeir sem geta tekið á sig gervi úlfs og öðlast með því alla hans eiginleika, eins og styrk, hraða og útlit. Sumir breytast í varúlfa af fúsum og frjálsum vilja, en aðrir fyrir tilstilli álaga eða galdra.
Sömu lögmál gilda í tölvuleiknum Sims 4, en með nýjasta aukapakkanum geta leikmenn „svarað kalli næturinnar“ og sett sig í hlutverk varúlfs.
The Sims 4: Werewolves kom út í gær eftir að hafa verið strítt mikið af Maxis með stiklum, skjáskotum og öðrum vísbendingum.
Netverjar voru ekki lengi að átta sig á komu varúlfa í Sims 4, en í Sims 3 var einnig hægt að spila sem slíkur.
Varúlfar eru þó ekki einu yfirnáttúrulegu verurnar sem hægt er að spila þar sem vampírur, hafmeyjur, seiðskrattar og geimverur eru einnig á stjá í Sims-heiminum.
Hvort sem Simsar breytast í varúlf í kjölfar bits eða voru einfaldlega fæddir inn í varúlfafjölskyldu, þurfa þeir að finna sitt hlutverk í heiminum sem slíkur. Varúlfar geta slegist í för með úlfahóp eða spangólað einir síns liðs.
Uppfærsla á Sims 4 sem fór í loftið fyrr í vikunni veitir leikmönnum dýpri upplifun við spilun leiksins og þá sérstaklega þegar spilað er með yfirnáttúrulegum verum.
Uppfærslan sneri að tunglstöðum og áhrif tunglsins á Simsa, en yfirnáttúrulegar verur verða fyrir sterkari áhrifum en venjulegir Simsar.