Tölvuleikir eru ansi vinsæl afþreying og búa þeir langflestir að einhverjum söguþræði, hvort sem um ræðir hlutverkaleiki eða sögudrifna leiki. Hins vegar hafa Íslendingar ekki haft möguleikann á að njóta þeirra á sínu móðurmáli.
Sigurður Karl Pétursson, 22 ára sagnfræðinemi við Háskóla Íslands, segir að það ætti að vera lágmarksskilyrði yfirvalda að þýða tölvuleiki, sérstaklega vinsælustu leikina.
„Sannleikurinn er sá að börn spila frekar tölvuleiki á ensku en að lesa íslenskar bækur,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið og mbl.is.
Hann skorar á Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra og Ásmund Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra að styðja við íslenska þýðingu á tölvuleikjum.
Ekki aðeins fyrir listina, heldur líka til varðveislu íslenskrar tungu, eins og hann orðar það.
„Þegar börn fara út að leika herma þau eftir sínum uppáhaldsleikjum, og þar sem þeir eru á ensku leika þau sér á því tungumáli frekar en á íslensku,“ bætir Sigurður við.
„Mörg halda í dag að tölvuleikur sé einungis afþreying barna, þar sem þau spila leiki á borð við Tetris. En tölvuleikir eru orðnir talsvert flóknari,“ segir Sigurður og bendir á hlutverkaleiki sem dæmi.
Þar spila leikmenn ákveðna persónu sem ferðast um heiminn og klára ýmis verkefni í gegnum sérstakan söguþráð. Þá eyðir leikmaður miklum tíma í að lesa texta og grípa innihaldið, sem ekki er fáanlegt á íslensku.
„Söguþráðurinn er það sem fær mann til að spila áfram – rétt eins og bækur þar sem lesandinn þarf að lesa 200 blaðsíður til þess að „leysa“ morðgátu,“ segir Sigurður.
Hann bendir á að stærstu tölvuleikirnir í dag kosti oft jafn mikið og nýjasta Hollywoodmyndin. Handritið í tölvuleikjum sé oftast betra en í flestum Hollywoodmyndum, að hans mati.
Athygli vekur að barnaefni, barnabækur, kvikmyndir og þáttaraðir hafa í áranna rás verið þýddar eða textaðar á íslensku til þess að varðveita íslenska tungu. En tölvuleikirnir hafa alveg gleymst, þrátt fyrir að vera ein vinsælasta afþreying nútímans.
Tveir af hverjum þremur Íslendingum sem hafa náð 18 ára aldri spila tölvuleiki samkvæmt könnun Gallup frá árinu 2019. Niðurstöður úr henni sýndu einnig að 86% einstaklinga á aldrinum 18 til 30 ára spiluðu tölvuleiki.
Geymslupláss á diskum hefur aukist talsvert í gegnum árin og getur nýlegur diskur búið að talsetningu og texta á fjölda tungumála. Þá er algengt að hægt sé að velja um tungumál á borð við norsku, sænsku, þýsku, frönsku og fleiri.
„Fyrir 15 árum var staðan sú að það var aðeins hægt að hafa eitt tungumál. Þá var það þannig að ef maður keypti leik í Þýskalandi var hann á þýsku, eða á frönsku ef þú keyptir hann í Frakklandi. En núna getur maður valið um fjölda tungumála,“ segir Sigurður.
Hefðu tölvuleikir verið í boði á íslensku þegar Sigurður var yngri segist hann hiklaust hefðu spilað þá á sínu móðurmáli.
Hann myndi einnig vilja möguleikann á að spila tölvuleiki á íslensku í dag, og þá af sömu ástæðum og hann kýs að frekar að lesa bók sem hefur verið þýdd yfir á íslensku af öðru tungumáli.
Hins vegar bendir Sigurður á að óvíst sé hvort allir eldri spilendur myndu vilja spila á íslensku núna, þar sem þeir séu vanir að spila leiki á ensku. Hann sér þó fyrir sér að foreldrar myndu frekar vilja að börn þeirra spiluðu leiki á íslensku en ensku.
„Tölvuleikjaframleiðendur eru alltaf að reyna að skapa tölvuleik sem sker sig úr öðrum leikjum, svo orðaforði leikjanna er yfirleitt mun stærri en „farðu þangað og gerðu þetta“. Ég til dæmis lærði enska orðið „fallout“ löngu áður en ég lærði íslenska orðið „ofanfall“. Ég lærði hvað „wasteland“ væri áður en ég lærði hvað óbyggðir væru, og svo framvegis.“
„Ég trúi því að ef tölvuleikir hefðu verið þýddir fyrir löngu, eða jafnvel bara textaðir, hefði orðaforði minn verið mun breiðari.“
Sigurður spilaði síðast tölvuleikinn God of War og telur hann hafa verið fullkominn til þess að þýða yfir á íslensku, en hann gerist m.a. í Miðgarði, úr norrænni goðafræði.
„Ég tel það hafa verið fullkominn leik til að þýða á íslensku, þar sem framleiðandinn notar íslenskuna þegar fólkið í leiknum á að vera að tala forn-norsku.“
Þar sem leikararnir voru allir frá enskumælandi löndum áttu þeir í miklum erfiðleikum með að bera fram íslensk orð eins og Miðgarður, Freyja, Baldur, Þór, Mjölnir og þar fram eftir götunum.
Framhaldsleikur af God of War er væntanlegur síðar á þessu ári, God of War: Ragnarök. Segir Sigurður hann kjörið tækifæri fyrir Íslendinga til þess að þýða þar sem hann veit til þess að Íslendingar hlakka mikið til að spila hann.
God of War er ekki eini stóri leikurinn á markaðnum sem fær innblástur sinn frá Norðurlöndunum og bendir Sigurður á The Elder Scrolls V: Skyrim frá árinu 2011.
„Skyrim fær mikinn innblástur frá Norðurlöndunum, þar sem leikurinn gerist í landinu Skyrim, sem er með svipað loftslag og Norðurlöndin.“
Sigurður myndi vilja sjá íslenska þýðingu á Skyrim og bendir á að fjölmargir Íslendingar hafi spilað þann leik.
„Ef þú ferð upp að einhverjum Íslendingi sem spilar eða hefur spilað
tölvuleiki lofa ég þér því að hann hefur spilað Skyrim.“
Að mati Sigurðar mun þýðing tölvuleikja ekki endilega skila fjárhagslegum hagnaði, en vissulega myndi það skila menningarlegum hagnaði.
Sjálfur þekkir hann til margra sem myndu vilja spila tölvuleiki með íslenskum texta, jafnvel íslensku tali.
Ekki vegna þægindanna, heldur vegna þess að „þau vita að það muni einungis bæta íslenska orðaforðann, eins og hversu mörg kjósa að hafa íslenskan texta þegar þau horfa á kvikmyndir frekar en enskan“.
Hvetur því Sigurður til þýðingar á tölvuleikjum fyrir Íslendinga og telur það ekki bara nauðsynlegt til að varðveita íslenska tungu heldur gæti það líka skapað störf á Íslandi.
„Ég veit að Íslendingar væru til í að spila nýjasta Witcher-leikinn eða Uncharted-leikinn á íslensku ef við fengjum íslenska leikara til að talsetja þá,“ segir Sigurður og bætir við:
„Hversu töff væri það að fá Ingvar Eggert til þess að leika Joel úr
The Last of Us eða Ólafíu Hrönn til að leika Alyx úr Half-Life?“
Talsetning myndi því skapa störf fyrir leikara jafnt sem þýðendur, þar sem það krefst mikillar vinnu að þýða tölvuleiki. Þar að auki telur hann að þetta gæti opnað á fleiri möguleika fyrir íslenska leikara.
„Með því að fá íslenska leikara til að talsetja tölvuleiki fá erlendir framleiðendur að vita af íslenskum hæfileikum, og þar með auka líkurnar á að Íslendingar fái að talsetja jafnvel enska leiki – og að sjálfsögðu leiki tengda norrænni goðafræði,“ segir Sigurður að endingu.