Ástbjört Viðja
Leikjakeppnin fór í loftið í gær þegar fyrsti þátturinn var sýndur í beinni útsendingu. Dusty-leikmaðurinn Þorsteinn Friðfinnsson er þáttastjóri og keppir þar við þjóðþekkta einstaklinga í tölvuleikjum.
Fyrsti gestur þáttaraðinnar var knattspyrnumaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen og kepptu þeir í fjölbreyttum leikjum á borð við FIFA, Rocket League og fleiri af miklu kappi í gær.
Eftir harða baráttu í tölvuleikjum stóð Andri Lucas uppi sem sigurvegari, sem kom Þorsteini mjög á óvart.
„Egóið er alveg í gólfinu en þetta var samt virkilega skemmtilegt,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.
Í verðlaun átti Andri að fá kassa af Nocco-orkudrykkjum, 10.000 króna gjafabréf hjá Dominos og 50 evra gjafakort hjá CoolBet, en hann ákvað að gefa áhorfendunum verðlaunin.
Þá voru vinningarnir gefnir áhorfendum sem voru í spjallglugganum á streyminu í enda þáttarins.
Þorsteinn segir allt hafa gengið eins og í sögu og að nánast engir tæknilegir örðugleikar hafi komið upp. Þar að auki bendir hann á að þátturinn hafi verið tekinn upp og verði birtur á YouTube síðar.
Hér að neðan er hægt að horfa á endursýninguna í gegnum Twitch.