Það eru til mörg mod fyrir tölvuleikinn Quake, en almennilegur vettvangur fyrir þau hefur hinsvegar ekki verið til fram að þessu. Þá einhver staður þar sem samfélagið getur deilt og sótt mod fyrir leikinn, rætt þau og fengið aðstoð við moddun.
Vefsíðan Slipgate Sightseer, eða bara Slipseer, er komin í loftið í beta-útgáfu en hún er hönnuð til þess að hýsa mod-samfélag tölvuleiksins Quake. Þá geta Quake-moddarar talað saman þar, deilt moddum og aðstoðað hvorn annan.
PCGamesN hafði samband við einn hönnuð síðunnar, Michael Markie, en hann er einnig tónlistarmaður og hannar borð fyrir 3D Realms og Slipgate Ironworks.
Markie lýsir Slipseer sem „miðstöð aðallega fyrir einspilunarefni úr Quake, efnishöfunda og leikmenn, þar sem efnishöfundar geta hlaðið upp, skipulagt og rætt efnið sitt á nútímalegri vefsíðu“.
Vefsíðan er aðeins í beta-útgáfu enn sem stendur og segir Markie að það sé „fullt fleira væntanlegt í framtíðinni“. Þá er til dæmis mod- og kortagerðar-kennsluefni á dagskrá ásamt fleiru.
Mod sem eru aðgengileg á Slipseer eru meðal annars „vanilla plus“-moddið Copper og Block Quake sem breytir leiknum í einskonar LEGO-útgáfu.