Hópur Íslendinga er á leiðinni Svíþjóðar í september til þess að taka þátt í rafíþróttamótinu Midgard.
Mótið fer fram í Helsingborg frá 16. september til 18. september og verður keppt í bardagaleiknum Super Smash Bros Ultimate og Super Smash Bros Melee. Þá mætast öflugustu Smash Bros-leikmennirnir frá Norðurlöndunum og keppast um titilinn „Konungur Norðursins“.
„Það er loksins komið að því að komast að því hver er sá besti, og Konungur Norðursins!“ segir um mótið á skráningarsíðunni.
Á Íslandi er öflug og virk sena í Smash Bros þar sem keppt er mánaðarlega í mótaröðinni Zoner's Paradise.
Nú þegar eru þrettán íslenskir leikmenn skráðir á Midgard en alls eru 113 leikmenn skráðir núna. Skráningin er enn opin en takmarkast við 256 leikmenn í heildina, þá komast 128 leikmenn að í ultimate-keppninni og 128 að í melee-keppninni.
Skráðir leikmenn frá Íslandi eru eftirfarandi:
AirLi - Erlingur Atli Pálmarsson
Solar - Bergsteinn Ásgeirsson
Mapelgold - Hlynur Eysteinsson
mR noMad - Skúli Bárðarsson
Seether - Frosti Hlifar Ragnarsson
Brake - Breki Örn Sigurðarson
thebigdog - Rögnvaldur Líndal Magnússon
Eggy - Eggert Örn Sigurðsson
Jon Sama - Jón Arnar Sighvatsson
Hilmir - Hilmir Örn Smárason Frodell
Purplefire8 - Tómas Sindri Leósson
thorri27 - Þórhallur Eyvindarson
Pheonixx507 - Eric Julian Dieme
Erlingur Atli „AirLi“ Pálmarsson, mótastjóri Zoner's Paradise, segir í samtali við mbl.is að þeir séu alltaf að spila saman og byrjaðir að æfa sig fyrir mótið, en að þetta verði samt hörð barátta.
„Ég er ekki að pæla í hversu langt við komumst endilega, við tökum bara einn leik í einu en ég held samt að við séum nokkuð góðir!“ segir Erlingur.
„Ég held samt að markmiðið sé að sýna heiminum hvað Ísland geti gert!“