Square Enix hefur tilkynnt um nýjan herkænsku- og hlutverkaleik, The Diofield Chronicle, sem kemur út í haust.
Leikurinn kemur út þann 22. september en prufuútgáfa af honum verður gefin út þann 10. ágúst, og mun allur árangur leikmanna frá prufuútgáfunni færast yfir þegar leikurinn verður opinberlega gefinn út.
Leikurinn er settur upp sem nokkuð týpískur ævintýra- og hlutverkaheimur, þar sem leikmenn stjórna herdeildinni Blue Fox. Þá spilast hann í rauntíma en þegar leikmenn gefa út skipanir eða taka afdrifaríkar ákvarðanir er hann settur á pásu.
Square Enix segir bardagana í Diofield Chronicle's byggjast á rauntímamati á aðstæðum á vígvellinum og að leikmenn geti notfært sér styrk- og veikleika hermanna sinna til þess að ná forskoti á andstæðinga sína.
„Notaðu fjölbreyttu hæfileikana, klassana og búnaðinn gáfulega til þess að klára verkefnið þitt,“ segir á Steam.
Hér að neðan má horfa á kynningarstiklu leiksins.