PlayStation kynnti nýja vildaráætlun fyrr í dag með bloggfærslu, PlayStation Stars, sem fer í loftið síðar á þessu ári.
Grace Chen, varaformaður PlayStation, segir PlayStation Stars vera „til fögnuðar um leikmennina sem hafa verið með í þessarri sívaxandi tölvuleikjaferð með þeim“.
Leikmenn geta skráð sig í Stars sér að kostnaðarlausu þegar það fer í loftið en þá geta þeir unnið til fjölda verðlauna með því að klára mismunandi herferðir eða önnur verkefni.
Sérstök herferð sem PlayStation kallar „mánaðarlega innritun“ mun fara fram í hverjum mánuði. Þá þurfa leikmenn bara að spila einhvern leik og fá að verðlaun fyrir það. Aðrar herferðir krefja leikmenn til dæmis um að vinna einhver mót, vinna til ákveðinna bikara og fleira.
Meðlimir í Stars geta unnið sér inn vildarpunkta sem síðan er hægt að nota til þess að versla með, en þar að auki munu meðlimir Stars fá vildarpunkta fyrir að versla í vefverslun PlayStation.
Chen kynnti einnig nýja stafræna safngripi til leiks, gripi sem leikmenn geta sankað að sér og dáðst að.
„Við erum að opinbera nýja tegund af verðlaunum sem heita „stafrænir safngripir“. Stafrænir safngripir eru jafn fjölbreyttir og vöruúrval okkar og vörumerki,“ segir Chen.
„Þeir eru stafrænar framsetningar af hlutunum sem aðdaéndur PlayStation kunna að meta, þar á meðal heittelskaðar og þekktar persónur frá leikjum og annars konar afþreyingu ásamt dýrmætum tækjum sem tengjast nýsköpunarsögu Sony.“
Þá verða alltaf nýir safngripir í boði til þess að vinna sér inn og einstaklega sjaldgæfir safngripir til þess að eltast við, og jafnvel einhverjir óvæntir „bara upp á gamanið“.
PlayStation vonar að nýja vildaráætlunin muni vekja upp gamlar minningar hjá tölvuleikjaspilurum á sama tíma og tilhlökkun til framtíðarinnar með PlayStation.
Fyrirtækið er nú þegar byrjað að prófa vildaráætlunina og mun hún fara í loftið seinna á þessu ári í nokkrum hollum, þá fá nokkur svæði aðgang að henni fyrst, önnur eftir það og svo koll af kolli.
„Þetta er bara upphafið á PlayStation Stars, og áætlunin mun halda áfram að þróast með tímanum.“
Nánari upplýsingar um PlayStation Stars fást síðar.