Úrslitaviðureignin í Masters Copenhagen í Valorant kláraðist með miklum látum eftir harða baráttu og hnífjafnan leik.
FunPlus Pheonix og Paper Rex lögðu bæði allt undir í gærkvöldi en þegar uppi var staðið fór FPX heim með bikarinn og um 27 og hálfa milljón íslenskra króna, eða 200.000 bandaríkjadali.
FPX byrjaði viðureignina af miklum krafti og vann fyrstu ellefu loturnar flekklaust og trylltust áhorfendur við það. Í framhaldi breytti Paper Rex um tækni og fór að ganga betur.
Fyrsti leikurinn endaði 13:3 fyrir FPX en Paper Rex hélt ótrautt áfram og sneri stöðunni sér í vil í þeim næsta. Þá var mikil barátta en Paper Rex hafði betur af og vann seinni leik viðureignarinnar 13:7.
Liðsmenn FPX létu þó ekki bugast og efldust í raun við áskorunina, þeir náðu yfirhöndinni á ný og vinna þriðju lotuna 13:7.
Í byrjun fjórðu lotu voru liðin mjög jöfn en þegar lengra leið á tók Paper Rex forystuna og vann fjórðu lotuna 13:7.
Þá höfðu bæði liðin unnið tvo leiki af fimm, svo mikil pressa var á þeim þar sem síðasti leikurinn réð úrslitum. Fimmti leikurinn einkenndist af mikilli spennu og voru liðin hnífjöfn nánast allan tímann, en í þrígang var staðan jöfn.
FPX átti fína byrjun með þremur sigurlotum en Paper Rex jafnaði nánast um leið og þá var staðan 3:3. Paper Rex hafði yfirhöndina í smástund en FPX jafnaði stöðuna aftur skömmu síðar og var hún þá 5:5. Paper Rex jafnaði svo einn eina ferðina og var staðan þá 9:9.
Bæði liðin óskuðu nokkuð oft eftir leikhléi og voru mikil læti í áhorfendum, enda mikil pressa þegar svo mikilvægur leikur er spilaður. FPX virtust eflast við pressuna og sóttu harkalega að Paper Rex með hröðu og djörfu spili sem sló þá út af laginu.
Óhætt er að segja að liðsmenn Paper Rex hafi látið tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur og hafi leyft stressinu að fara með sig lokamínúturnar.
FPX vann síðustu lotuna 13:9 sigur eftir harkalegan og öran lokasprett sem tryggði þeim sigurinn á Masters Copenhagen.
Hér að neðan má horfa á augnablikið þegar liðið vann en endursýningu af úrslitaviðureigninni í heild sinni er að finna á Twitch.