Án gríns, við fundum fyrir stuðningnum

Fagna verðskulduðum sigri á Masters Copenhagen.
Fagna verðskulduðum sigri á Masters Copenhagen. Ljósmynd/Riot Games/Colin Young-Wolff

Rafíþróttaliðið FunPlus Pheonix sannaði sig heldur en ekki í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði þegar það fór með glæstan sigur af hólmi á Masters Copenhagen.

Liðsmaðurinn ange1 hjá FPX hafði sagt að þeir væru mættir til þess að vinna mótið, sem og þeir gerðu þrátt fyrir mikla erfiðleika í byrjun.

Erfið byrjun varð þeim ekki að falli

SUYGETSU, leikmaður hjá FPX, veiktist þegar mótið í Kaupmannahöfn var að hefjast og þurfti FPX því að spila sínar fyrstu viðureignir á mótinu með lánsmanni. Vert er að nefna að FPX tapaði ekki einni viðureign eftir að SUYGETSU náði bata og sneri aftur til leiks.

Fyrir utan veikindin komst liðið heldur ekki á Masters-mótið sem fór fram á undan þessu vegna ferðatakmarkana, en það mót fór fram hér á Íslandi.

FunPlus Pheonix með bikarinn sinn eftir Masters Copenhagen.
FunPlus Pheonix með bikarinn sinn eftir Masters Copenhagen. Ljósmynd/Riot Games/Colin Young-Wolff

Ótrúlegur og erfiður leikur

FPX sigldu því krappan sjó en tókst að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu, sem fer fram í haust, og að vinna Masters Copenhagen með glæsi.

Í úrslitaviðureigninni mættust stálin stinn þar sem FPX spilaði upp á fyrsta sætið gegn Paper Rex, sem er mjög öflugt lið. Viðureignin var hnífjöfn og áhorfendurnir í salnum létu vel í sér heyra, enda mikil spenna.

„Þetta var ótrúlegur leikur og þeir voru með einstakan leikstíl, mjög erfiður leikur, erfitt að undirbúa sig fyrir hann,“ sagði ange1, leikmaður hjá FPX, á blaðamannafundi eftir úrslitaviðureignina.

Hér að neðan má sjá SUYGETSU taka lokaskotin í úrslitaviðureigninni.

Höfðu getað sannað sig fyrr

Það kom mörgum á óvart hversu öflugir FPX voru en ardiis, leikmaður hjá FPX, sagði að þeir hefðu getað sýnt styrk sinn talsvert fyrr ef þeir hefðu komist til Íslands.

Ange1 og ardiis töldu einnig að liðinu hafi ekki tekist að sýna sitt rétta andlit á mótinu og þótti ardiis jafnframt lítið til spilamennsku sinnar koma á þessu móti.

„Ég myndi ekki segja að við höfum sýnt fram á okkar rétta andlit á þessu móti, eða hvernig við myndum vilja spila,“ sagði ange1.

Kyrylo „ange1“ Karasov, fyrirliði í FunPlus Pheonix, FPX.
Kyrylo „ange1“ Karasov, fyrirliði í FunPlus Pheonix, FPX. Ljósmynd/Riot Games/Lance Skundrich

Breytingar í vændum

Þá nefndi hann að það væri fjölmargt sem ætti eftir að breytast hjá þeim og er því óhætt að segja að forvitnilegt verður að fylgjast með liðinu í Istanbul í september, á heimsmeistaramótinu.

„Ég er með hugmynd, ég kann að útskýra hana, og ég kann að láta leikmenn trúa á hana,“ sagði ange1,

„Ég held að í augnablikinu, á þessarri mínútu, séum við besta liðið í heiminum - og það er mjög erfitt að sannfæra mig um annað.“

Þessir strákar geta gengið á vatni

„Í hreinskilni sagt spilaði ég skítlélega á þessu móti. Horfðu á fólkið við hliðina á mér, þessir strákar geta gengið á vatni! Ég er bara ánægður með að við höfum unnið,“ sagði ardiis og hélt áfram.

„Ég held að það sé hellingur sem við höfum ekki ennþá sýnt fram á.“

Sem fyrr segir voru áhorfendur í salnum mjög spenntir og létu vel í sér heyra er þeir hvöttu sína menn áfram. Enda var þetta í fyrsta skiptið sem að aðdáendur fengu tækifæri á að fylgjast með alþjóðlegu Valorant-móti í persónu, úr salnum.

Hér að neðan má horfa á stutt myndband af mjög spenntum Paper Rex-aðdáanda sem brá óvænt fyrir í mynd.

Stuðningsmenn spiluðu lykilhlutverkið

„Ef ég á að vera hreinskilinn, þá fannst mér áhorfendurnir hafa hjálpað okkur mjög mikið. Ekki í sambandi við upplýsingagjöf, augljóslega, heldur í sambandi við að veita stuðning,“ sagði Ange1.

Hann vildi þar að auki meina að fólkið sem stóð við bakið á þeim hafi spilað lykilhlutverkið og þakkaði hann öllum þeim sem hvöttu þá áfram sérstakelga fyrir, hvort sem það var úr sal eða í gegnum netið.

„Án gríns, við fundum fyrir stuðningnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert