Fyrsti íslenski grunnskólinn með rafíþróttabraut

Arnar Hólm Einarsson, umsjónarkenari rafíþróttabrautarinnar í grunnskólanum NÚ.
Arnar Hólm Einarsson, umsjónarkenari rafíþróttabrautarinnar í grunnskólanum NÚ. mbl.is/Hákon Pálsson

Rafíþróttir fara ört vaxandi og með því skapast sífellt fleiri atvinnutækifæri. Grunnskólinn NÚ er sá fyrsti á landinu sem býður upp á rafíþróttabraut. Er hún ætluð börnum sem hafa hug á að gerast rafíþróttamenn.

NÚ er grunnskóli í Hafnarfirði fyrir börn í 8. til 10. bekk sem leggur áherslu á íþróttir, hreyfingu og heilsu. Nemendur geta valið á milli þriggja námsbrauta, þá afreksíþrótta-, heilsu-, og rafíþróttabrautar.

Hér má finna heimasíðu skólans.

Fyrstur með rafíþróttabraut

Nokkrir skólar á Íslandi bjóða upp nú þegar á ákveðna rafíþróttaáfanga en NÚ er fyrstur grunnskóla til þess að bjóða nemendum upp á braut sem hjálpar nemendum að ná árangri sem rafíþróttamenn.

Nemendur hafa aðgengi að líkamsrækt og tölvuveri innan skólans en sækja einnig íþróttatíma utan skólans. Áhersla á daglega hreyfingu og heilbrigða lífshætti er í fyrirrúmi og hreyfa börn á íþróttabraut sig fjóra daga af fimm í viku.

Til viðbótar við aukna hreyfingu hafa nemendur aðgang að styrktarþjálfara og íþróttasálfræðingi.

Lærdómsríkt ár

Rafíþróttabrautin var fyrst sett á laggirnar fyrir ári síðan og segir Arnar Hólm Einarsson, umsjónarkennari yfir rafíþróttabraut NÚ, að nokkrar breytingar séu í vændum.

„Fyrsta árinu er nú lokið og við erum búin að átta okkur á því hvernig rafíþróttabraut okkur langar að vera með, og hvernig rafíþróttabraut okkur langar ekki að vera með,“ segir Arnar Hólm.

Frá tölvuaðstöðu NÚ í Hafnarfirði.
Frá tölvuaðstöðu NÚ í Hafnarfirði. Hákon Pálsson

Undirstaða fyrir hvaða leik sem er

Á komandi ári mun námið snúa meir að fyrstu persónu skotleikjum eins og Valorant eða Counter-Strike: Global Offensive.

Æfingar og þjálfun í slíkum leikjum felur í sér marga kosti eins og samhæfingu augna og handa, betri fínhreyfingar, aukna samskiptafærni sem og leiðtogafærni. Munu nemendur því geta byggt upp sterkan grunn sem nýtist í hvaða leik sem er.

„Hugmyndin er að búa til einhvern sem er góður í hvaða tölvuleik sem er.“

Unnið með styrkleika og áhugasvið

Námið er hannað með þeim hætti að það efli sjálfstæði nemanda og er áhersla jafnframt lögð á að efla styrkleika þeirra og vinna í kringum áhugasvið þeirra.

„Ég hugsa þetta þegar ég kem í skólann á morgnana: ef ég get bætt við einu prósenti af einhvers konar þekkingu, liðleika, styrk, náungakærleik eða hverju sem er á þennan einstakling á hverjum einasta degi - ég veit að ég er ekki með þá 365 daga á ári en ef við segjum 225 daga, þá erum við komin með 225% betri einstakling eftir þennan tíma.“

„Eitt af markmiðum skólans er að setja sér markmið og verða alltaf örlítið betri útgáfa af sjálfum sér.“

Vert er að nefna að nemendur geta fengið að skila verkefnum á fjölbreytta máta sem knýr þá bæði til sjálfstæðis og eflir þeirra hæfileika.

Þá geta nemendur til dæmis valið um að skila verkefnum með ritgerð, myndbandi eða öðru og segist Arnar upplifa meiri ánægju á meðal nemanda við þetta.

Vilja koma upp liði

Skólinn stefnir einnig að því að gefa nemendum á rafíþróttabraut tækifæri til þess að kynnast og spreyta sig í atvinnumennskunni.

Þá vill Arnar koma upp ungmannaliði með nemendum þar sem þeir fá að spreyta sig í raunverulegu keppnisumhverfi.

Nánar verður fjallað um áform NÚ varðandi atvinnumennsku í rafíþróttum fyrir nemendur á rafíþróttabraut síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert