Dusty sýnir frá fyrsta deginum í Berlín

Íslenska rafíþróttaliðið Dusty hefur aldrei náð lengra í League of Legends, en það er nú komið til Berlínar til þess að spila úrslitaviðureignina í NLC-mótaröðinni.

Í myndbandinu hér að ofan veitir liðið stutta innsýn í fyrsta daginn í Berlín, en liðið fór meðal annars í myndatökur og fleira til undirbúnings fyrir úrslitin.

Aldrei náð lengra

Sem fyrr segir er þetta mesti árangur sem liðið hefur náð í League of Legends en fyrir utan það að komast í úrslitaleikinn var Dusty stigahæst í deildinni þetta tímabilið og hefur þar að auki tryggt sér sæti í European Masters.

Vert er að nefna að Dusty sat í þriðja sæti í deildinni á síðasta tímabili og er því óhætt að segja að liðið sé á hraðri uppleið.

Úrslitaviðureignin sjálf í NLC hefst á morgun klukkan 16:00 þegar Dusty mætir X7 Esports. 

Hægt verður að fylgjast með viðureigninni í beinni útsendingu á Twitch og geta áhorfendur sýnt stuðning sinn í spjallglugganum á útsendingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert