Ástbjört Viðja
Rafíþróttaliðið Dusty er í Berlín að spila úrslitaviðureignina í NLC í tölvuleiknum League of Legends gegn X7 Esports.
Viðureignin hófst klukkan 15 en leikmenn Dusty hafa beðið hennar af mikilli eftirvæntingu.
Mótshaldarar útveguðu Dusty æfingaaðstöðu í Berlín þar sem þeir hafa getað æft og undirbúið sig undanfarna daga.
„Hér eru allar aðstæður eins og best verður á kosið og hugsað er fyrir öllum smáatriðum,“ segir fulltrúi Dusty í samtali við mbl.is og bætir við að stemningin sé bara mjög góð.
Samkvæmt veðbönkum er X7 líklegra til sigurs og hefur unnið nokkuð margar viðureignir í röð, en það hefur Dusty gert líka.
Sigra þarf þrjá leiki af fimm til að bera sigur úr býtum í viðureigninni.
„Eftir að Viking gekk til liðs við þá, hafa þeir verið óstöðvandi. En Viking er fyrrverandi leikmaður hjá Dusty og er hans beðið með mikilli eftirvæntingu hérna í Berlín.“
Hér að neðan má horfa á úrslitin í beinni útsendingu.