Yngri kynslóðin mun taka mig í bakaríið

Loic Björn de La Forest keppti á franska meistaramótinu í …
Loic Björn de La Forest keppti á franska meistaramótinu í Mario Kart árið 2004. Hann mun taka þátt í Íslandsmeistaramótinu í Arena næstkomandi laugardag. Ljósmynd/Aðsend

Keppendur á fyrsta Íslandsmeistaramótinu í Mario Kart munu mæta fyrrum keppenda í franska meistaramótinu í Mario Kart.

Loic Björn de La Forest er skráður á Íslandsmeistaramótið næstkomandi laugardag en hann tók þátt í franska meistaramótinu í Mario Kart árið 2004.

Töpuðu fyrir Frakklandsmeistaranum

Franska meistaramótið árið 2004 var skipulagt af frönsku sjónvarpsstöðinni Game One þar sem Nintendo stóð ekki fyrir neinni opinberri keppni.

Á mótinu var keppt í tveggja manna-liðum og spilaði Loic með bróður sínum. Þeir komust áfram í fjórðungsúrslit en töpuðu gegn liðinu sem síðan kom til með að vinna mótið.

Bræðurnir Loic Björn de La Forest og Cédric Jón de …
Bræðurnir Loic Björn de La Forest og Cédric Jón de La Forest kepptu á franska meistaramótinu í Mario Kart árið 2004. Loic er hægra megin og Cédric vinstra megin. Ljósmynd/Aðsend

Sátu í Mario Kart-bílum

„Ég spilaði með bróður mínum í liði. Skjáirnir voru nokkuð smáir í þá tíð og við spiluðum á skiptum skjá úr nokkurri fjarlægð, svo það var engin stór flatur skjár þar sem við gátum séð hvað var í raunverulega gangi,“ segir Loic í samtali við mbl.is

Bræðurnir sátu í Mario Kart-bílum þegar þeir kepptu og notuðust við þráðlausa GameCube-fjarstýringu, Wavebird.

„Mario Kart-bílarnir voru bara þarna til skrauts, og í hreinskilni sagt alveg hræðilegir til þess að sitja og keppa í.“

Var þetta síðasta stóra mótið sem hann tók þátt í en hann hefur keppt á nokkrum smærri mótum þegar tækifæri hefur gefist.

Bræðurnir Loic Björn de La Forest og Cédric Jón de …
Bræðurnir Loic Björn de La Forest og Cédric Jón de La Forest í kerrunum á franska meistaramótinu í Mario Kart árið 2004. Loic er lengst til vinstri og Cédric í miðjunni.

Spilaði fyrsta Mario Kart-leikinn

Loic byrjaði að spila Mario Kart snemma á tíunda áratugnum, þá fyrsta Mario Kart-leikinn sem kom út árið 1992 fyrir Super NES-leikjatölvur. Enn í dag klárar hann leikinn í hvert skipti sem nýr Mario Kart kemur en þar sem lífið hefur stækkað talsvert frá yngri árum gefst minni tími til spilunar.

Loic er hálf-íslenskur og hálf-franskur og fæddist hér á Íslandi, en flutti til Sviss árið 1987 þegar hann var tveggja ára gamall. Fyrir tólf árum síðan, árið 2010, flutti hann aftur heim til Íslands.

„Áður fyrr spilaði ég miklu meira. Ég mun alltaf klára leikinn að fullu í hvert skipti sem nýr kemur út, en með tvö ung börn, fjölskyldulíf og vinnu þá spila ég aðeins nokkrum sinnum á ári.“

Muni taka hann í bakaríið

„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila á móti aftur, en því miður held ég að ég geti ekki unnið það,“ segir Loic.

„Ég er ennþá nokkuð góður og mun vonandi vera krefjandi fyrir aðra keppendur, en þar sem ég hef minni tíma til að æfa mig býst ég fyllilega við því að yngri kynslóðin muni taka mig í bakaríið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert