Breiðablik færir gæðin upp á næsta stig

Skráning er hafin fyrir iðkendur í rafíþróttum hjá Breiðablik.
Skráning er hafin fyrir iðkendur í rafíþróttum hjá Breiðablik. Grafík/Breiðablik

Breiðablik hefur opnað skráningu fyrir iðkendur í rafíþróttum og stefnir á að færa gæði starfsins upp á „næsta stig“.

„Við erum mjög spennt fyrir vetrinum og sjáum fyrir okkur aukna skráningu, sérstaklega í ljósi þess að það var algjör sprenging síðasta sumar,“ segir Davíð Jóhannsson, formaður rafíþróttadeildar Breiðabliks, í samtali við mbl.is.

Þétta hópa og lækka lágmarksaldur

Æfingatöflunni hefur verið breytt í kjölfar reynslunnar sem fékkst eftir fyrsta árið. Þá hefur Breiðablik þétt eldri hópana og mun lækka lágmarksaldur iðkenda frá átta niður í sjö ára.

„Við höfum þétt aðeins eldri hópana og langar einnig að prófa að vera með sér stelpuhópa, yngri og eldri,“ segir Davíð.

„Við vorum með átta ára lágmarksaldur síðasta vetur en ætlum að fara niður í sjö ára. Sumarnámskeiðið var niður í sjö ára og það gekk mjög vel.“ 

Iðkendur fá enn betri þjálfun

„Til viðbótar við breytta æfingatöflu þá erum við að færa allt iðkendastarfið upp á næsta stig í gæðum. Yfirþjálfarinn okkar, Þórir, hefur kallað til sín þjálfara sem eru þeir bestu í hverjum leik.“

Þjálfararnir munu sækja þjálfaranámskeið hjá Rafíþróttasamtökum Íslands, RÍSÍ, og vinna eftir þjálfaraáætlun Þóris.

„Iðkendur eru því að fá þjálfun hjá þeim bestu við aðstæður sem eru á heimsmælikvarða.“

Skráning fer fram á Sportabler-síðu Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert