Óska eftir auknum stuðningi við rafíþróttafélög

Óska eftir fjármagni fyrir rafíþróttafélög á Íslandi.
Óska eftir fjármagni fyrir rafíþróttafélög á Íslandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í dag verður flutt tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um styrki til rafíþróttadeilda í Reykjavík. Í tillögunni er lagt til að Reykjavíkurborg styrki þau íþróttafélög í Reykjavík sem hafa komið á fót rafíþróttadeildum um 20 milljónir á ári.

Tillagan ber yfirheitið „Rafíþróttir auka færni í félagslegum samskiptum og auka líkamlegt hreysti iðkenda“

Vinsældirnar aukast
„Rafíþróttir njóta sívaxandi vinsælda og biðlistar hafa myndast vegna mikillar aðsóknar í greinina en töluverður kostnaður fylgir því að koma upp rafíþróttadeildum.”

Þetta rímar við þann árangur sem sést hefur í skipulögðu rafíþróttastarfi á Norðurlöndunum, þar sem iðkendur merkja aukna færni í félagslegum samskiptum, aukið líkamlegt hreysti og státa sig af betri árangri í leik og starfi.

Á síðustu árum hefur rannsóknum fjölgað til muna þar sem rannsóknir sýna fram á jákvæð áhrif á viðbragðstíma, rökhugsun og lausn vandamála meðal þeirra hópa sem spila tölvuleiki.

Um eitt hundrað milljónir manna fylgdust með úrslitaviðureign í League …
Um eitt hundrað milljónir manna fylgdust með úrslitaviðureign í League of Legends sem fór fram í Laugardalshöll. Ljósmynd/esports.com

Stórmót haldin hér á landi
Ísland hefur stimplað sig rækilega inn í heim rafíþrótta. Eitt stærsta rafíþróttamót heims, League of Legends Mid-Season Invitational, var haldið í Laugardalshöll í maí 2021.

Þátttakendur í mótinu voru um 600 talsins og keyptu þeir um 8.000 gistinætur á hótelum í Reykjavík enda stóð mótið yfir í 24 daga. Þá var heimsmeistaramótið í League of Legends, Worlds 2021, haldið hérlendis í Laugardalshöllinni.

Heimsmeistaramótið var stærsti rafíþróttaviðburður í heimi, en um eitt hundrað milljónir manna fylgdust með úrslitaviðureigninni.

Vinsældirnar aukast.
Vinsældirnar aukast. Ljósmynd/Esports Middle East

Skipulagt rafíþróttastarf stuðlar að heilbrigðu líferni
Rafíþróttir ganga út á að börn og unglingar mæli sér mót, sem lið og einstaklingar, í alls kyns tölvuleikjum auk þess sem líkamlegar æfingar eru hluti af starfinu.

Rafíþróttir eru þannig eins og hefðbundnar íþróttir í þeim skilningi að iðkendur hittast á æfingum og keppa svo sín á milli á mótum.

„Þetta eitt og sér fær ungmenni til þess að fara út úr húsi, hitta aðra einstaklinga og mynda nauðsynleg félagsleg tengsl.”
Þá hefur þátttaka í skipulögðu hópastarfi jákvæðar afleiðingar almennt og læra ungmenni þar m.a. markmiðasetningu, sjálfsaga, ábyrgð og tilfinningastjórnun svo fátt eitt sé nefnt.

Það er til mikils að vinna fyrir Reykjavíkurborg að halda áfram stuðningi við rafíþróttadeildirnar og ýta undir að önnur íþróttafélög – sem hafa getu til þess – bjóði upp á æfingar í rafíþróttum hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert