Nú fer hver að verða síðastur til þess að kveðja lansetrið Ground Zero þar sem setrinu lokar í næstu viku eftir tuttugu ára starfsemi.
Lokadagar setursins eru ráðnir og verður spilað í hinsta sinn á Ground Zero þann 29. október, á laugardaginn í næstu viku.
Setrið verður opið fram á rauðanótt á lokakvöldinu eins og vaninn er um helgar, eða til klukkan 03:00.
Þá verður músin endanlega lögð á hilluna, eftir tuttugu ára ævintýri.
„Komdu og upplifðu alvöru lan-stemningu með fjölbreyttasta leikjaúrvalinu sem sést og mun sjást á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Ground Zero ásamt þakkarkveðjum.
Þar að auki eru allir munir staðarins til sölu, myndir og fleira sem hægt er að benda starfsfólki á og bjóða í.
Skemmtileg stemning hefur myndast í húsinu upp á síðkastið eins og vænta mátti, er því ráð að hafa hraðar hendur til þess að tryggja sér einhverja muni frá staðnum.