Astralis er danskt rafíþróttasamband sem á keppnislið í mörgum leikjum, en það lið undir hatti Astralis sem hefur skilað bestum árangri, er Counter-Strike lið þeirra.
Astralis er nefnilega eina rafíþróttasambandið í sögunni sem unnið hefur þrjá heimsmeistaratitla í röð í CS:GO. Árin 2018 og 2019 voru þeir taldir með eitt besta lið heims og jafnvel eitt besta lið sögunnar.
Á tveimur árum vann lið Astralis þrjá meistaratitla í röð og geta fá lið státað af jafn góðum árangri.
Liðsfélagar en fyrst og fremst vinir
Liðið samanstóð af 5 piltum sem höfðu flestir spilað saman frá árinu 2015. Það ár spiluðu þeir með Team Solo-Mid en eftir lélegt gengi þar fóru þeir yfir til Astralis árið 2016.
Þrátt fyrir að leikmennirnir hefðu spilað lengi saman náðu þeir framan af litlum árangri. Nokkrar breytingar urðu á liðinu, til dæmis fengnir mismunandi þjálfarar og teymið þeirra stækkaði sífellt. Miklar vonir voru bundnar við liðið og allir hjá Astralis höfðu mikla trú á þeim.
Liðinu gekk vel á mótum í upphafi en svo misstigu leikmenn sig gjarnan þegar lengra leið á mótin og töpuðu leikjum sem þeir hefðu átt að vinna. Þetta festist við liðið og voru þeir kallaðir ýmsum nöfnum af netverjum og sagðir vera lið sem gæti gert allt nema vinna titla.
Trekk í trekk datt liðið út í undanúrslitum eða tapaði úrslitaleikjum og var talað um að lítið sjálfstraust væri í liðinu og að hugarfar þeirra drægi þá niður þegar mest á reyndi.
Það er alltaf von
Árið 2018 var gott ár fyrir Counter-Strike lið Astralis. Þeir fengu nýjan fyrirliða og ráðinn var inn sálfræðingur sem vann með hugarfar Astralis-manna sem svo fullkomnuðu hópinn sinn með því að kaupa ungan Dana sem hafði sýnt góða takta á fyrri mótum.
Eftir það hrönnuðust bikararnir inn og voru þeir í fyrsta sæti á öllum styrkleikalistum auk þess sem margir leikmenn þeirra unnu til verðlauna fyrir frammistöðu sína.
Sigurgöngunni lauk eftir að þeir höfðu verið valdir lið ársins þrjú ár í röð, orðið stórmeistarar þrjú ár í röð og fyrsta liðið í sögunni til þess að vinna þrjá slíka titla í röð.
Fallið var hátt
Eftir þessa góðu tíma var fallið af toppnum hratt. Erfitt er að segja til um hvað kom fyrir en það hjálpaði sennilega ekki til að þeir misstu eina stórstjörnuna sína, Nicolai „Dev1ce” Reedtz, til annars skandinavísks liðs í einni stærstu sölu í sögu CS:GO.
Tveir leikmenn af fimm drógu sig út úr liðinu þar sem þeir þurftu að vinna úr streitu og sýndu merki kulnunar. Það er því ljóst að álagið hefur verið gífurlegt og mikil pressa á að vinna leiki og ná góðum árangri.
Einungis nokkrum mánuðum eftir að Nicolai „Dev1ce” var seldur frá Astralis fór hann í veikindaleyfi vegna kulnunar og hefur ekki spilað fyrir nýja liðið sitt síðan í desember 2021.
Komust ekki til Brasilíu
Nú í lok október hefst stórmót í CS:GO sem fer fram í Rio De Janeiro og mistókst Astralis-liðinu að ávinna sér keppnisrétt á mótinu. Það var mikið áfall fyrir nýja leikmenn liðsins sem og áhorfendur.
Leikmenn liðsins vildu fá að spreyta sig og sýna getuna en það verður að bíða þar til á næsta móti. Astralis á aðdáendur um allan heim sem biðu spenntir eftir því að sjá hvort ný gullöld væri í kortunum.
Þessir aðdáendur Astralis verða því að finna sér nýtt lið til að halda með á mótinu.
Mbl verður með umfjöllun frá Brasílíu.