Segir Bigga vera frænda sinn

Aleksander Mojsa, betur þekktur sem Mojsla innan tölvuleikjasamfélagsins.
Aleksander Mojsa, betur þekktur sem Mojsla innan tölvuleikjasamfélagsins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aleksander Mojsa er 26 ára gamall Dota-leikmaður og jafnframt einn af þeim sem sjá um að skipuleggja mótin hér á landi í leiknum. Innan tölvuleikjasamfélagsins er hann þó betur þekktur undir nafninu Mojsla, sem er einskonar hliðarsjálfið hans.

„Mojsla er einmitt svona hliðarsjálfið (e.alter ego) mitt í tölvuleikjasamfélaginu. Eins og Kobe Bryant með Black Mamba, þá er ég Mojsla,“ segir Mojsla í samtali við mbl.is.

Tölvuleikir og síld

Upprunalega er hann frá Póllandi en þegar hann var um tveggja ára gamall flutti hann hingað með fjölskyldu sinni, þá á Flateyri. Árið 2005 flutti hann síðan til Hafnarfjarðar og ólst þar upp.

Ásamt því að vera virkur innan Dota-senunnar er margt fleira á prjónunum hjá honum, en hann rekur lítið síldarfyrirtæki, er á öðru ári í námi þar sem hann lærir félagsáðgjöf. Þar að auki stundar hann mikla líkamsrækt ásamt íþróttir á borð við glímu og amerískan fótbolta.

Óhætt er að segja að dagskráin sé nokkuð þétt hjá honum, en hann býr alltaf til tíma fyrir tölvuleikjaspil og rafíþróttir, enda skiptir það hann hjartans máli og hefur spilað stórt hlutverk í lífi hans.

Aleksander Mojsa, einnig þekktur sem Mojsla, er frændi Bigga.
Aleksander Mojsa, einnig þekktur sem Mojsla, er frændi Bigga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Mamma ertu að spila?

„Ég held að ég hafi verið um sjö eða átta ára þegar ég byrjaði að spila, og þá í PlayStation 1. Síðan þá hafa tölvuleikir verið partur af lífinu,“ segir Mojsla.

Þá bætir hann við að móðir hans hafi einnig haft gaman að þessu þó hún hafi ekki endilega viðurkennt það á þeim tíma.

„Hún stalst stundum í tölvuna þegar ég var í sturtu og var að spila Crash Bandicoot. Svo þegar það var of mikil þögn heima meðan ég var í sturtu þá kallaði ég „mamma ertu að spila?“. Þá svaraði hún „nei nei“ en var svo búin að vera að spila og halda áfram með minn árangur í leiknum.“

„Ég var alltaf að reyna að gera fyrir hana hennar eigið „save“ svo hún gæti bara byrjað upp á nýtt en hún sagði alltaf bara „nei nei ég er bara að prófa“ - en svo var hún að prófa ógeðslega oft.“

Segir tölvuleiki hafa hjálpað talsvert

Sem fyrr segir eru tölvuleikir mjög stór hluti af lífi Mojsla og spilar hann nánast daglega, einn og einn leik með strákunum. Að sama skapi vill hann meina að tölvuleikir hafi hjálpað honum talsvert í gegnum lífið, og þá sérstaklega á grunnskólagöngu sinni.

„Ég átti mjög erfiða grunnskólagöngu þar sem ég var lagður í einelti, en tölvuleikir voru örugga athvarfið mitt.“

Þá kom hann heim og spilaði tölvuleiki með vinum sínum sem hann átti á netinu. Hann gat gleymt sér í heim tölvuleikja og var í einhverju flæði sem hann kunni vel við.

„Það hjálpaði mér mjög mikið við að takast á við eineltið sem átti sér stað í skólanum, og bara erfiðleikana. Svo ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Spilað í um áratug

Árið 2013 byrjaði félagi Mojsla að kenna honum á Dota, en aðeins í skamma stund. Mojsla hélt áfram að spila leikinn en segist þó hafa verið „í ruglinu“ fyrstu mánuðina.

Nú hefur hann spilað leikinn í um áratug og er enn mikill Dota-maður ásamt því að vera virkur innan senunnar.

Ekki aðeins sem hluti af mótastjórn heldur spilar hann einnig mikið sjálfur og keppir.

Til fleiri leiðir við að spila leikinn

Skömmu eftir Dota-mótið sem fór fram í september sagði hann mbl.is að hann væri ekki þessi “hefðbundni Dota-spilari”. Heldur sé hann frekar „út fyrir kassann-spilari“ og hafi ólíka sýn á leikinn en margir aðrir.

„Ég byggi upp með skrýtnum hlutum þannig að menn hlægja af mér, en svo stundum virkar þetta,“ segir Mojsla.

Að mati Mojsla eru til fleiri árangursríkar leiðir við spilun Dota, þó að leikurinn hafi að mestu verið spilaður á ákveðinn hátt. Það sé svo margt hægt að gera í leiknum en menn hreinlega notfæri sér það ekki.

„Þetta getur verið rosalega mikið „hit and miss“ hjá mér, ef það er eitthvað sem gengur ógeðslega vel þá er þetta rúst. Stundum er þetta samt bara algjört rugl og þá er gert mesta grínið af mér.“

Horfir ekki til atvinnumennsku

Aðspurður segist hann ekki eiga erindi í atvinnumennskuna erlendis þó hann sé orðinn nokkuð seigur í leiknum í dag. Þá bæði vegna aldurs og eins því hann er hreinlega bara ekki nógu góður til þess.

„Ef ég myndi reyna að verða það góður myndi það taka alltof langan tíma, ef ég myndi þá yfir höfuð ná því. Hinsvegar ef ég væri þrettán ára, og kannski aðeins efnilegri eins og t.d. Atli Snær, þá kannski.“

„Tólf til tuttugu ára aldurinn er þessi „make it or break it-aldurinn“. Þú lærir allt hraðar og heilinn sýgur allt í sig eins og svampur. Menn eru þá bæði fljótari að læra þetta og hafa einnig meiri tíma til að skuldbinda sig, engar ábyrgðir og svoleiðis,“ segir Mojsla en Dota er einmitt þekktur fyrir að vera bæði flókinn og erfiður.

Þróa þetta áfram

Dota-samfélagið á Íslandi er ekki ýkja stórt og leggur Mojsla því áherslu á að bæði stækka það sem efla. Til dæmis með þátttöku sinni í mótastjórn og með því að keppa á mótunum sjálfur.

Þar fyrir utan hefur hann einnig verið til taks fyrir nýliða í leiknum og kennt ófáum einstaklingunum að spila. Honum finnst best að byrja á að kenna viðkomandi á hetjuna Spirit Breaker, en sú hetja er ekki eins flókin og margar aðrar.

„Það er klárlega markmiðið mitt að virkja Dota-samfélagið, fá fleira fólk í þetta og vonandi bara búa til eitthvað samfélag og halda áfram í mótastjórninni. Bara þróa þetta áfram.“

Hann er frændi okkar allra

Líkt og áður hefur verið greint frá er mikið um grín og glens í Dota-samfélaginu hér og verður því ekki hjá því komist að minnast á Bigga Frænda.

„Það er einn félagi okkar, sem er vel þekktur inni í íslensku senunni og heitir Biggi. Hann er kannski betur þekktur sem Biggi Frændi og það er útaf því að hann er frændi minn,“ segir Mojsla.

„En hann er ekki bara frændi minn, heldur er hann frændi okkar allra. Þannig að hann er líka frændi þinn. Svo við köllum hann Bigga Frænda útaf því að hann er frændi okkar allra. Það elska allir Bigga Frænda, hann er ljúfur gæi og góður í Dota.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka