Riot Games heldur kvennamót í lok þessa mánaðar með tæplega hálfri milljón íslenskra króna í verðlaunapottinum, eða 3.000 evrur. Keppt verður í tölvuleiknum League of Legends frá 26. til 27. nóvember.
Í samstarfi við GGTech og NUEL hefur Riot tilkynnt um nýja og sjálfstæða mótaröð í League of Legends fyrir konur innan Evrópu, Rising Stars, og er þetta mót hluti af þeirri mótaröð.
Þar sem þetta er kvennamót þá mega væntanlega ekki vera karlkyns leikmenn innan þeira liða sem vilja taka þátt í mótinu. Riot segir það vera til stuðnings við aukin tækifæri í rafíþróttum.
Liðin þurfa því að vera skipuð af kvenkyns leikmönnum og eins þurfa þeir að hafa náð sextán ára aldri. Umsóknarfrestur er til 22. nóvember og fer skráning fram í gegnum Challengermode.
Þrátt fyrir að mótaröðin sé opin öllum konum innan Evrópu þá er Riot Games að horfa sérstaklega til kvenna í Norður-Evrópu, þá kvenna í Bretlandi, Írlandi og á Norðurlöndunum.
Spilað verður í gegnum netið en Confetti Institute hjá Creative Technologies í Nottingham mun sjá um útsendinguna, sem verður sýnd á Twitch.
Nánar um þetta má lesa á Twitter eða á Discord-rás mótaraðinnar.