Einn vinsælasti leikur síðustu ára fær uppfærslu

Ný uppfærsla Warzone kemur út í dag.
Ný uppfærsla Warzone kemur út í dag. Skjáskot/CallofDuty

Call of Duty gefur út nýja viðbót í leikjaflóru sína, uppfærslu á vinsæla leikjahamnum (e. gamemode) Warzone.

Warzone virkar líkt og Hunger Games en markmið leiksins er að standa einn uppi ósigraður.

100 spilarar byrja leikinn og reyna að finna búnað til að hjálpa sér að lifa af og verjast öðrum spilurum.

Nýjar kringumstæður

Warzone 2.0 kemur með uppfærslu á kortinu sem spilað er í leiknum en það er hluti af kortaflóru Call of Duty og ber kortið nafnið Al Mazrah.

Leikmenn ferðast um Al Mazrah-borg og reyna að finna sér vopn og hluti til að verjast öðrum spilurum.

Ef leikmaður deyr missir hann vopnin sem hann hafði umráð yfir og andstæðingurinn, sem hafði betur, hefur aðgang að vopnunum.

Leikmaður hefur tækifæri að komast aftur inn í leikinn.
Leikmaður hefur tækifæri að komast aftur inn í leikinn. Skjáskot/Warzone

Leikmaðurinn sem datt út hefur þó tækifæri á að komast aftur inn í leikinn en þarf að hafa betur í einvígi gegn öðrum leikmanni sem hefur dottið úr leik. Sigurvegari einvígsins fær annað tækifæri.

Warzone 2.0 er gjaldfrjáls og kemur út í kvöld, miðvikudaginn 16.nóvember klukkan 18.00, að íslenskum tíma.

Spilarar geta þó hlaðið leiknum niður á tölvur sínar strax og byrjað spilun um leið og hann kemur út.

Ný stikla frá Activision sýnir leikinn eins og hann gerist bestur. Leikmenn geta valið útfærslur á vopnum sínum sem og keyrt bíla, fjórhjól, jeppa, trukka, báta og þyrlur svo nokkuð sé nefnt.

Leikmaður verður þó að passa eldsneytisnotkun og finna eldsneyti til þess að fylla eldsneytistanka farartækja sinna.

Breyttur leikur

Nýr leikhamur kemur í Warzone 2.0 en hann ber titilinn „DMZ“.

DMZ er leikhamur sem inniheldur söguþráð og geta leikmenn tekið frí frá því að spila gegn öðrum spilurum og einbeitt sér að bæta eigin stöðu í DMZ, þar sem leikið er gegn tölvustjórnuðum andstæðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert