Í ljósi umræðunnar um eineltismál sem hafa verið áberandi að undanförnu, hafa þær Bryndís Heiða Gunnarsdóttir og Katrín Ýr Rósudóttir ákveðið að blása til góðgerðarstreymis til styrktar Berginu.
Þær eru nú í beinni útsendingu og spila undir merkjum Fylkis til þess að safna fyrir Bergið, en Bryndís Heiða er rafíþróttaþjálfari hjá Fylki og Katrín Ýr er leikmaður Akademíuliðs Fylkis í Counter-Strike: Global Offensive.
Streymið hófst klukkan 13:00 og verða þær í beinni útsendingu á Twitch-rás Fylkis fram yfir miðnætti, eða til klukkan 01:00.
„Okkur langaði að nýta okkar stöðu til að vekja athygli á eineltismálum og geta hvatt fólk á öllum aldri að leita sér hjálpið,“ segir Bryndís Heiða í samtali við mbl.is.
Þær ákváðu að styrkja Bergið, sem er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir fólk undir 25 ára aldri, vegna starfseminnar sem þar fer fram. Nánar um Bergið má lesa á heimasíðu setursins.
„Við vildum gera einhverja skemmtilega hluti og áskoranir til að skemmta öðrum fyrir gott málefni.“
„Það er engin sérstök dagskrá en við ætlum að fá einhverja til að spjalla um málefnið og spila leiki,“ segir Katrín Ýr í samtali við mbl.is.
Liðsfélagi Katrínar, Axel Örn Gíslason, hefur skrifað ýmis atriði og hugmyndir niður á blað fyrir stelpurnar til þess að útfæra meðan streyminu stendur.
Þær hafa lista frá liðsfélaga Katrínar, Axel Erni Gíslasyni, í höndunum en á honum eru hugmyndir af ýmsum afþreyingum og atriðum fyrir þær til þess að framkvæma áhorfendum til skemmtunar.
Þá munu þær gera það sem stendur á listanum en hvað þær gera fer eftir því hversu miklu þær ná að safna meðan streyminu stendur.