Fleiri gallar í Warzone

Trukkurinn umtalaði.
Trukkurinn umtalaði. Grafík/ModernWarfare

Vinsæli fyrstu-persónu skotleikurinn Call of Duty: Warzone 2 hefur undanfarið fengið þónokkra gagnrýni vegna galla í leiknum. Margir spilarar bíða í örvæntingu eftir uppfærslu sem tekur á þessum málum og losna því við óttann um að gallarnir komi upp í þeirra leik. 

Sumir spilarar geta keyrt í kafi án þess að drukkna

Þessi sérkennilegi galli hefur gert nokkrum spilurum kleift að keyra trukk í leiknum í kafi án þess að spilarinn drukkni, sem myndi gerast ef spilarinn væri ekki um borð í bílnum.

Sjórinn er góð leið til þess að ferðast um kortið og margir sem stinga sér til sunds til þess að stytta sér leið en þessi galli þýðir að sumir hafa freistað gæfunnar, fundið sér pallbíl og náð að keyra á hafsbotni og ferðast hraðar um án afleiðinga. 

Þyrlur springa upp úr þurru

Sumir spilarar hafa lent í því að þyrla þeirra springi í loft upp. Þetta gerist oft upp úr þurru og ekkert sem bendir til þess að þessi galli muni koma fram. Ef þetta skeður er engin leið fyrir spilara að lifa af og er því verulega alvarlegur galli.

Þyrlan er ein besta leiðin til þess að ferðast hratt yfir kortið en þyrlunni fylgir þónokkur hávaði sem er ein ástæða þess að sumir halda sig frá þyrlunum, vilja ekki vera skotmark annarra. Í meðfylgjandi klippu sést spilari vera koma inn til lendingar á þyrlunni þegar hún, upp úr þurru, springur. 

Lestin veitir spilurum vörn

Lestin í Warzone er vinsæll lendingarstaður margra. Lestin ferðast um kortið og hægt að standa á henni og fylgja lestarsporunum.

Gallinn lýsir sér í því að spilarar hafa fundið stað á lestinni þar sem ekki er hægt að skjóta á þá, sem gefur þeim þá vörn gegn andstæðingum og tækifæri á að taka aðra út án þess að þurfa að hafa áhyggjur af lífi sínu. Þótt það líti út fyrir að skotin hæfi leikmanninn, lenda þau í raun bakvið hann. 

Það er vonandi að gallarnir verði fjarlægðir svo leikurinn verði jafnari og spilarar lendi ekki í því að falla vegna þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka