Fyrir ári síðan blés tölvuleikjapían og streymandinn Rósa Björk, einnig þekkt sem g00nhunter, til góðgerðarstreymis og tókst þá að safna tæplega einni og hálfri milljón íslenskra króna á einum sólarhring. Á föstudaginn ætlar Rósa að endurtaka leikinn.
Góðgerðarstreymi Rósu á síðasta ári var haldið til styrktar Píeta samtökunum og stóð yfir í heilan sólarhring á streymisveitunni Twitch. Rósu brá heldur en ekki í brún þegar 1,4 milljón krónur höfðu safnast saman í formi frjálsra framlaga.
Líkt og kemur fram hér að ofan ætlar Rósa að endurtaka leikinn á föstudaginn með því að streyma í sólarhring til styrktar Píeta samtökunum. Hún vonast jafnframt til þess að ná að safna enn hærri upphæð en síðast.
Að þessu sinni mun góðum gestum á borð við Friðrik Dór, Herra Hnetusmjör, Flóna, Gumma Emil og Birgi Hákon bregða fyrir í streyminu ásamt strákunum í Dusty og Jóa Spóa. Með þeim mun Rósa takast á við ýmsar áskoranir til þess að halda uppi fjörinu meðan söfnuninni stendur.
Í samtali við mbl.is segir Rósa að áhorfendur mega m.a. búast við því að fylgjast með þeim spila sprengjuspilið, lita hárið hennar bleikt, reyna að hlægja ekki með munninn fullan af vatni.
Eins er blindandi bragðáskorun (e. blind taste challange) á dagskrá hjá þeim og verða fæturnar á EddezeNNN jafnvel vaxaðar í beinni útsendingu.
Nú þegar hafa framlög borist í söfnunina, en flugfélagið Play ætlar að gefa flug fyrir tvo og eins mun Bleksmiðjan gefa gjafabréf.
Óhætt er að segja að Píeta samtökin eigi í raun bróðir Rósu, Finnboga Má, að þakka, þar sem söfnunin var upphaflega sett af stað til þess að heiðra minningu hans. Rósa Björk var viðmælandi nýjasta Settöpp-þáttar rafíþróttavefsins en í þættinum fjallar hún aðeins um þetta.
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða ásamt því að veita aðstandendum stuðning.
Símanúmerið hjá Píeta samtökunum er 552-2218 og eru allir sem telja sig þurfa á hjálp að halda hvattir til þess að leita til þeirra. Einnig er hægt að nálgast nánari upplýsingar á heimasíðunni pieta.is.