Aldrei fleiri spilað leikinn á sama tíma

Rafíþróttir, Counter-Strike, eSports, video games.
Rafíþróttir, Counter-Strike, eSports, video games. Skjáskot/youtube.com/ESLCounter-Strike

Tölvuleikurinn Counter-Strike: Global Offensive er einn sá vinsælasti hjá tölvuleikjaspilurum og rafíþróttamönnum en þrátt fyrir að tíu ár séu liðin frá útgáfu hans heldur leikurinn áfram að vaxa í vinsældum.

Rafíþróttavefurinn greindi nýlega frá því að virkum leikmönnum í CS:GO færi ört fjölgandi en samkvæmt gögnum frá Steamcharts hefur blað verið brotið er varðar fjölda leikmanna sem spila á sama tíma.

Síðustu 30 daga voru að meðaltali 766.347 leikmenn sem spiluðu leikinn en þann 6. febrúar voru 1.320.219 leikmenn að spila leikinn á sama tíma, fleiri en nokkurn tímann áður.

Ástandið í samfélaginu ólíkt 

Fyrra met var slegið í apríl árið 2020 þegar 1.305.714 leikmenn spiluðu samtímis en athyglisvert er að líta á stöðu samfélagsins þegar metin voru slegin.

Þegar fyrra metið var slegið var fólk mikið læst inni heima hjá sér og einangrað, sem varð til þess að margir hófu að spila meira af tölvuleikjum eða jafnvel byrja á því. Síðasta mánuðinn hefur fólk aftur á móti verið frjálst sinna ferða og er um gjörólíkar aðstæður að ræða.

Þó að leikmenn hafi aldrei verið fleiri að spila á sama tíma, þá var meðalfjöldi leikmanna talsvert hærri í apríl árið 2020. Að meðaltali voru 857.604 manns sem spiluðu leikinn í apríl 2020, en það er um 90.000 leikmönnum fleiri en undanfarna 30 daga.

Leikmönnum hefur þó fjölgað ansi hratt frá mánuði til mánaðar, en frá október á síðasta ári hefur meðalfjöldi leikmanna aukist um 158 þúsund manns. 

Gögn frá Steamcharts um leikmannafjölda Counter-Strike: Global Offensive.
Gögn frá Steamcharts um leikmannafjölda Counter-Strike: Global Offensive. Skjáskot/Steamcharts

Margt um að vera í senunni

Mögulega hefur upphaf nýrra tímabila í keppnisdeildum Counter-Strike eitthvað að gera með þessa gríðarlegu fjölgun leikmanna.

Ýmis stórmót í leiknum fara einnig fram um þessar mundir, eins og IEM Katowice sem lauk um helgina, og gæti aðdragandi þeirra því einnig átt sinn hlut í þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert