Bannaður tímabundið eftir útsendinguna

Twitch.
Twitch. Ljósmynd/Unsplash/Caspar Camille Rubin

Í kjölfar útsendingar Zmacker á streymisveitunni Twitch, sem vakti ansi mikla athygli fyrr í mánuðinum, var hann settur í tímabundið bann á veitunni.

Fyrr í mánuðinum talaði Zmacker um fyrirkomulag kvennadeildarinnar í Valorant á Íslandi í beinni útsendingu á Twitch en það leið ekki á löngu þar til útsendingin fór úr böndunum.

Kom honum ekki á óvart

Á streyminu var skipst á orðum en tveimur dögum síðar var Zmacker kominn í tímabundið bann á veitunni. Samkvæmt Twitch hafði hann brotið á samfélagsreglum eða þjónustuskilmálum veitunnar og bannaður í tvær vikur samfleytt fyrir vikið.

Í samtali við mbl.is segir Zmacker að í fyrstu hafi bannið komið honum að óvörum vegna þess að hann var í beinni útsendingu þegar það kom inn. Þá var hann að streyma og spila í rólegheitum ásamt vinum sínum og ekkert athugavert átti sér stað.

Úr böndunum og í vitleysu

Þegar hann fór að skoða þetta betur, sá hann að bannið væri tilkomið vegna útsendingarinnar sem olli miklu fjaðrafoki og furðaði hann sig því ekki á banninu. 

„Þetta Twitch-bann kemur tveimur dögum eftir streymið mitt þar sem ég var með mínar persónulegu skoðanir á deildarfyrirkomulagi,“ segir Zmacker í samtali við mbl.is.

„Upphaflega átti þetta að vera létt „rant“ um mína skoðun á ósamræmi fyrirkomulagsins og hvernig þetta með verðlaunaféð væri til dæmis alls ekki réttlætanlegt. Síðan fóru hlutirnir algjörlega úr böndunum og í allskonar vitleysu.“

Banninu var aflétt í dag og er hann nú þegar byrjaður að streyma aftur en þetta var í fyrsta skiptið sem hann fær bann á Twitch.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert