Komst „auðveldlega“ yfir heimilisföng starfsmanna

Ljósmynd/Colourbox

Umræðan um gagnaleka Activision varðandi leiðarvísi Call of Duty-leikjanna tekur nú á sig alvarlegri mynd þar sem í ljós hefur komið að tölvuþrjóturinn komst meðal annars yfir persónulegar upplýsingar um starfsmenn fyrirtækisins.

Blaðamaðurinn Tom Henderson hjá Insider Gaming segir fleira koma upp úr kafinu eftir samtal við Vxunderground, sem birti skjáskot af gögnum um Call of Duty og fjallaði um lekann á Twitter.

Heimilisföng í höndum tölvuþrjóts

Samkvæmt honum höfðu tölvuþrjótarnir komist yfir býsna viðkvæm gögn frá fyrirtækinu. Meðal annars er um að ræða trúnaðarupplýsingar um starfsmenn, svo sem um heimilisföng þeirra, símanúmer, full nöfn, netföng, laun og fleira.

Þessar upplýsingar eiga að hafa borist Vxunderground nýlega eftir að illa gekk að selja þær til annarra aðila.

Auðveldlega brotist inn

Í samtali við Insider Gaming á tölvuþrjóturinn að hafa komist auðveldlega inn í tölvu mannauðsstjóra fyrirtækisins sem gerði honum kleift að sækja þessu gögn.

Svo virðist sem tölvuþrjóturinn hafi aðeins brotist inn í tölvu mannauðsstjórans og eiga upplýsingar um leikmenn að vera öruggar en það hefur þó ekki verið staðfest.

Insider Gaming gat ekki fullyrt að Activision hefði gert starfsmönnum sínum þetta ljóst þar sem miðlinum hafði ekki borist svar frá fyrirtækinu fyrir birtingu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka