Í kjölfar sívaxandi vinsælda rafíþrótta og tölvuleikjaspilunar hefur nýtt fyrirtæki verið sett á legg, fyrirtæki sem hyggst sérhæfa sig í viðburðahaldi er snýr að tölvuleikjum. Byrjað verður á, lan- og rafíþróttamótum.
Athafnamaðurinn Adam Leslie Scanlon hefur staðið fyrir ýmsum tölvuleikjaviðburðum hér á landi og þá einna helst í kringum tölvuleiki frá Nintendo. Má þar nefna fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart sem fór fram á síðasta ári og gekk vonum framar.
Nú hefur hann stofnað fyrirtækið Next Level Events með það í huga að skipuleggja tölvuleikja- og rafíþróttaviðburði en í samtali við mbl.is segist hann vilja halda fleiri tegundir viðburða í framtíðinni.
Óhætt er að segja að höfuðið hafi verið lagt í bleyti þegar kom að því að hanna merki fyrirtækisins. Þá er vert að nefna að á bak vð bókstafinn E og undirstrikun nafnsins býr dýpri merking en í fyrstu mætti ætla.
Bókstafurinn E táknar Nintendo-fjarstýringar og í merkinu bera stafirnir sömu liti og ákveðnir takkar á slíkri fjarstýringu. Dökka línan, sem undirstrikar nafn fyrirtækisins, vísar til allra fyrsta tölvuleiksins, Tennis fyrir tvo, sem kom út árið 1958.
„Next Level Events virkar eins og tölvuleikjafyrirtæki. Þegar þú klárar eitt borð (e. level) ferðu upp í það næsta. Á ensku er líka sagt að „þessi hamborgari sé alveg next level“ eða „þessi viðburður var alveg next level“,“ segir Adam í samtali við mbl.is og vísar þar í meiri gæði en gengur og gerist.
Næsti viðburður sem fyrirtækið stendur fyrir er Mario-fögnuðurinn en hann fer fram í Kópavogi í næsta mánuði og er haldinn í samstarfi við Erling Atla Pálmarsson „AirLi“, mótastjóra Zoner's Paradise.
Óhætt er að segja að rafíþróttahöllinni Arena verði þá breytt í eins konar Mario-veröld í þrjá daga, frá 10. til 12. mars þar sem staðurinn verður skreyttur í bak og fyrir líkt og á Íslandsmeistaramótinu.
Alla væntanlega sem liðna viðburði fyrirtækisins er að finna í opna hópnum Nintendo Events Iceland á Facebook og hefur Instagram-aðgangur einnig verið stofnaður fyrir fyrirtækið.