Nýtt fyrirtæki sérhæfir sig í tölvuleikjaviðburðum

Adam Leslie Scanlon hélt fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart.
Adam Leslie Scanlon hélt fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart. Ljósmynd/Elín Guðmundsdóttir

Í kjölfar sívaxandi vinsælda rafíþrótta og tölvuleikjaspilunar hefur nýtt fyrirtæki verið sett á legg, fyrirtæki sem hyggst sérhæfa sig í viðburðahaldi er snýr að tölvuleikjum. Byrjað verður á, lan- og rafíþróttamótum.

Athafnamaðurinn Adam Leslie Scanlon hefur staðið fyrir ýmsum tölvuleikjaviðburðum hér á landi og þá einna helst í kringum tölvuleiki frá Nintendo. Má þar nefna fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart sem fór fram á síðasta ári og gekk vonum framar.

Nú hefur hann stofnað fyrirtækið Next Level Events með það í huga að skipuleggja tölvuleikja- og rafíþróttaviðburði en í samtali við mbl.is segist hann vilja halda fleiri tegundir viðburða í framtíðinni.

Next Level Events.
Next Level Events. Garfík/Next Level Events

Táknberi fyrir fyrsta tölvuleikinn

Óhætt er að segja að höfuðið hafi verið lagt í bleyti þegar kom að því að hanna merki fyrirtækisins. Þá er vert að nefna að á bak vð bókstafinn E og undirstrikun nafnsins býr dýpri merking en í fyrstu mætti ætla.

Bókstafurinn E táknar Nintendo-fjarstýringar og í merkinu bera stafirnir sömu liti og ákveðnir takkar á slíkri fjarstýringu. Dökka línan, sem undirstrikar nafn fyrirtækisins, vísar til allra fyrsta tölvuleiksins, Tennis fyrir tvo, sem kom út árið 1958.

Adam Leslie Scanlon hélt fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart og …
Adam Leslie Scanlon hélt fyrsta Íslandsmeistaramótið í Mario Kart og var þessi mynd tekin á mótinu. Ljósmynd/Elín Guðmundsdóttir

„Next Level Events virkar eins og tölvuleikjafyrirtæki. Þegar þú klárar eitt borð (e. level) ferðu upp í það næsta. Á ensku er líka sagt að „þessi hamborgari sé alveg next level“ eða „þessi viðburður var alveg next level“,“ segir Adam í samtali við mbl.is og vísar þar í meiri gæði en gengur og gerist.

Breytir Arena í Mario-veröld

Næsti viðburður sem fyrirtækið stendur fyrir er Mario-fögnuðurinn en hann fer fram í Kópavogi í næsta mánuði og er haldinn í samstarfi við Erling Atla Pálmarsson „AirLi“, mótastjóra Zoner's Paradise.

Óhætt er að segja að rafíþróttahöllinni Arena verði þá breytt í eins konar Mario-veröld í þrjá daga, frá 10. til 12. mars þar sem staðurinn verður skreyttur í bak og fyrir líkt og á Íslandsmeistaramótinu.

Alla væntanlega sem liðna viðburði fyrirtækisins er að finna í opna hópnum Nintendo Events Iceland á Facebook og hefur Instagram-aðgangur einnig verið stofnaður fyrir fyrirtækið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert