Vilja fá heimilið aftur í tölvurnar

Hægt var að hitta aðra spilara og spjalla.
Hægt var að hitta aðra spilara og spjalla. Skjáskot/PSHome

Mörg hundruð aðdáendur Playstation hafa tjáð sig á samskiptaforritinu Reddit um gamlar skemmtilegar minningar úr Playstation 3 leikjatölvunni.

Þar stóð upp úr forrit sem nefnist „Playstation Home“ og var einskonar sýndarveruleikaheimur þar sem spilarar gátu átt sín eigin heimili og labbað um og hitt á aðra spilara.

Einnig var hægt að spila skemmtilega litla leiki, eins og keilu, og gátu spilarar hannað persónur sínar eins og þeim þótti flottast. 

Lifði í sex ár

Playstation Home leit dagsins ljós árið 2008 á þá nýrri Playstation 3 leikjatölvu og var í gangi í sex ár, þangað til næsta kynslóð leikjatölva kom á markað. Þrátt fyrir að það sé ekki algengt að spilarar minnist þessa gerviheims eru sumir sem sakna hans, sé minningin rifjuð upp. 


Þráðurinn á Reddit er með yfir 300 athugasemdir þar sem spilarar rifja upp sínar uppáhalds minningar úr Playstation Home. 

Árið 2021 endurnýjaði Sony höfundarréttinn að nafninu Playstation Home og því enn von að sjá forritið á ný.

Forritið gæti þó birst í nýrri mynd því Playstation hefur hafið sölu á nýjum sýndarveruleikagleraugum sem myndu vera fullkomin fyrir svona sýndarveruleikaheim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka